Nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa svansmerkta barnavagna, burðarrúm, bílstóla o.fl. barnavörur sem eru að hluta til úr textíl, en nýlega tóku gildi nýjar viðmiðunarreglur Norræna svansins fyrir vörur af þessu tagi. Mikill vilji virðist vera til staðar hjá foreldrum til að kaupa umhverfisvænar barnavörur og í nýlegri könnun kváðust 6 af hverjum 10 dönskum foreldrum smábarna frekar vilja kaupa svansmerktan barnavagn en aðra vagna. Til að geta fengið Svaninn þurfa umræddar vörur að uppfylla strangar kröfur m.a. um efni sem notuð eru í tau, fyllingar, plast og við yfirborðsmeðhöndlun á málmum. Þá er bannað að nota tiltekin eldvarnarefni og flúorefni í þessar vörur, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 5. september).
Greinasafn fyrir merki: eldvarnarefni
Barnakerrur innihalda skaðleg efni
Helmingur af þeim barnakerrum sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu á dögunum reyndust innihalda hormónaraskandi og/eða krabbameinsvaldandi efni í áklæði, ólum, regnhlífum, öryggisslám eða handföngum. Efni á borð við TCPP (trísklóróísóprópýl-fosfat), klóróparaffín og naftalín fundust í fjórum kerrum af átta. Tvö fyrrnefndu efnin eru notuð sem eldvarnarefni og sem plastmýkingarefni en naftalín er tjöruefni. Bannað er að nota TCPP í leikföng og vörur sem börn stinga upp í sig, en barnavagnar falla ekki undir þær reglur. Klóróparaffín er á lista Umhverfisstofnunar Danmerkur yfir óæskileg efni en notkun þess er ekki bönnuð. Neytendasamtökin hafa barist fyrir því að skaðleg efni verði bönnuð í öllum vörum ætluðum börnum en ekki einungis leikföngum.
(Sjá frétt Tænk í dag).
Lítt þekkt eldvarnarefni finnast í þvagi
Í nýrri rannsókn á eldvarnarefnum í þvagi Bandaríkjamanna fannst mikið magn af lítt rannsökuðum fosfatefnum. Sérstaka athygli vakti að efnið TCEP (trís-(2-klóretýl) fosfat) fannst í 75% þvagsýnanna, en efnið hefur ekki áður verið mælt í þvagi. Eldvarnarefni úr fosfati er m.a. að finna á bólstruðum húsgögnum. Efnin eru krabbameinsvaldandi auk þess sem sum þeirra (m.a. TCEP) hafa áhrif á taugastarfsemi og starfsemi æxlunarfæra. Efnin berast oftast inn í líkamann með innöndun, en rannsóknin sýndi einmitt fram á fylgni milli styrks efnanna í þvagi og í ryki á heimili sömu einstaklinga. Bann hefur verið lagt við notkun tiltekinna eldvarnarefna, en umrædd fosfatefni hafa ekki fengið mikla athygli hingað til, þrátt fyrir skaðsemina.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Jákvæð þróun í raftækjaframleiðslu
Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).
Hættuleg efni í burðarpokum
Nokkrar tegundir burðarpoka fyrir börn innihalda efni sem talin eru líklegir krabbameinsvaldar, geta truflað hormónastarfsemi líkamans og dregið úr frjósemi. Þetta kom í ljós í könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk í síðasta mánuði. Þar voru tólf mismunandi vörur af þessu tagi teknar til skoðunar og reyndust þrjár þeirra innihalda hættuleg efni. Þetta voru burðarpokar af tegundunum Britax og Stokke MyCarrier og burðarsjalið Babylonia BB-sling. Tvær þær fyrrnefndu innhéldu varasöm eldvarnarefni og í burðarsjalinu leyndust nonýlfenólethoxýlöt (NPE). Nýlega var samþykkt að banna notkun tiltekinna eldvarnarefna í leikföng innan ESB en bannið nær ekki til burðarpoka, enda þótt börn komist ekki síður í nána snertingu við þá en við leikföngin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).