Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).
Greinasafn fyrir merki: PAH
Varasöm efni í kerrupokum
Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).
Hættuleg efni í frárennslisvatni frá bergbroti
Frárennslisvatn frá bergbroti (e. fracking) getur innihaldið þungmálma á borð við kvikasilfur, króm og arsen, auk annarra skaðlegra efna, að því er fram kom nýlega í viðamikilli rannsókn Rice Háskólans í Bandaríkjunum. Styrkur efnanna er oft yfir löglegum mörkum fyrir drykkjarvatn, en málmarnir leysast úr berginu þegar vatninu er dælt niður. Um 50 lífræn efni fundust í vatninu, þ.á.m. krabbameinsvaldandi efni á borð við tólúen og etýlbensen. Halógenuð kolvetni fundust einnig í öllum sýnum, en þessi efni eru notuð til að hreinsa frárennslisvatn til að hægt sé að nota það aftur. Efnin geta skaðað lifur og taugakerfi. Hins vegar kom það á óvart að PAH-efni skyldu ekki greinast í vatninu, en slík efni er yfirleitt að finna í frárennslisvatni frá námu- og kolavinnslu. Rannsóknin undirstrikar þörfina fyrir auknar rannsóknir á umhverfisáhrifum bergbrots og mikilvægi hreinsunar og meðhöndlunar frárennslisvatns.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 19. febrúar).
Hættuleg efni í leikföngum
Rúmur helmingur af 30 tegundum tréleikfanga fyrir börn að þriggja ára aldri sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Stiftung Warentest reyndust innihalda hættuleg efni. Um var að ræða efni á borð við PAH, lífræn tinsambönd, blý, hættuleg litarefni og formaldehýð, þ.e.a.s. efni sem geta verið krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi svo eitthvað sé nefnt. Efnin fundust einkum í lakki, snúrum, netum og krossviði.
(Sjá frétt á heimasíðu Stiftung Warentest 21. nóvember).