Nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa svansmerkta barnavagna, burðarrúm, bílstóla o.fl. barnavörur sem eru að hluta til úr textíl, en nýlega tóku gildi nýjar viðmiðunarreglur Norræna svansins fyrir vörur af þessu tagi. Mikill vilji virðist vera til staðar hjá foreldrum til að kaupa umhverfisvænar barnavörur og í nýlegri könnun kváðust 6 af hverjum 10 dönskum foreldrum smábarna frekar vilja kaupa svansmerktan barnavagn en aðra vagna. Til að geta fengið Svaninn þurfa umræddar vörur að uppfylla strangar kröfur m.a. um efni sem notuð eru í tau, fyllingar, plast og við yfirborðsmeðhöndlun á málmum. Þá er bannað að nota tiltekin eldvarnarefni og flúorefni í þessar vörur, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 5. september).