Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi

2020-taepper-boern-160Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).

Dýnur í barnarúmum gefa frá sér skaðleg efni

UntitledDýnur í barnarúmum geta gefið frá sér hættuleg efnasambönd. Þetta kom fram við rannsókn vísindamanna við Háskólann í Austin í Texas, þar sem skoðaðar voru 20 mismunandi dýnur. Algengast var að dýnurnar gæfu frá sér rokgjörn lífræn efni (VOCs) sem fyrirfinnast í pólýúretan- og pólýestersvampi í dýnunum. Losun efnanna eykst eftir því sem líkamhiti barnsins hækkar og er mest á því svæði sem andardráttur barnsins nær til. Þá reyndist styrkur efnanna um fjórfalt hærri í nýjum dýnum en gömlum. Talið er að loftmengun innanhúss geti haft mikil áhrif á þroska ungbarna og þá sérstaklega mengun nálægt svefnstað, enda sofa ungabörn um 50-60% af tíma sínum.
(Sjá frétt ENN í gær).