Amazon kynnir loftslagsmerki

Á dögunum hleypti vefverslunin Amazon af stokkunum nýju verkefni sem ætlað er að gera kaupendum auðveldara fyrir að velja vörur sem samræmast markmiðum í loftslagsmálum. Verkefnið nefnist „Climate Pledge Friendly“ (eða „Loftslagsviljavænt“ í mjög lauslegri íslenskri þýðingu). Með þessu verkefni er vakin sérstök athygli á umhverfisvottuðum vörum með því að auðkenna þær með merki verkefnisins. Til að byrja með spannar verkefnið rúmlega 40.000 vörur með 18 mismunandi umhverfismerki eða önnur merki af svipuðum toga, þ.á m. Norræna Svaninn og Umhverfismerki ESB. Í fyrstu verður verkefnið sýnilegt fyrir kaupendur í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi.
(Sjá frétt á heimasíðu Amazon 28. október).

Danskir neytendur hugsa grænt

Um 60% danskra neytenda taka mið af umhverfismerkjum þegar þeir kaupa vörur. Vörur sem merktar eru t.d. með Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB eða danska Ø-merkinu fyrir lífræna framleiðslu eiga því greiðari leið ofan í innkaupakörfurnar en aðrar vörur. Þetta á sérstaklega við um vörur til daglegra nota, svo sem matvörur, hreinsivörur og húðvörur, en hins vegar virðast umhverfisþættir ekki vega eins þungt við innkaup á heimilistækjum og húsgögnum. Þar eru neytendur e.t.v. ekki orðnir eins vanir því að vörurnar fáist umhverfismerktar.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 19. september).

Ofnæmisvaldar algengir í hreingerningarefnum

test-kemi-i-universalrengoering160Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Varasöm efni í kerrupokum

babysoveposer-test (2) (160x77)Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).

Áskorun um vottuð opinber innkaup

modupp_puff_362Helstu umhverfisvottunarstofur í Svíþjóð hafa skorað á ríki og sveitarfélög að sjá til þess að helmingur opinberra innkaupa verði annað hvort umhverfis- eða siðgæðisvottaður af þriðja aðila fyrir árið 2020. Nú þegar hafa sveitarfélögin Örebro, Eskilstuna og Malmö tekið áskoruninni enda líta þau á vistvæna innkaupastefnu hins opinbera sem mikilvægan þátt í að sýna íbúum gott fordæmi. Áskorunin var gefin út af sjö helstu umhverfis- og siðgæðismerkingum Svíþjóðar, þ.e. Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB, Bra Miljöval, Fairtrade, Krav, MSC og TCO Certified. Áskorunin er leið samtakanna til að benda á að nú sé tími til kominn fyrir opinbera geirann að nútímavæða innkaup sín og stuðla að því að Svíþjóð nái innlendum og alþjóðlegum markmiðum í umhverfisvernd og útrýmingu fátæktar. Opinberir aðilar í Svíþjóð kaupa vörur og þjónustu árlega fyrir um 600 milljarða sænskra króna (um 10.000 milljarða ísl. kr.), þannig að aukin áhersla á vottaðar vörur getur haft mikil áhrif á markaðinn.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 4. júní).

Svanurinn í fremstu röð

Svanurinn og Umhverfismerki ESB eru meðal 10 þekktustu umhverfismerkja í heimi samkvæmt nýrri skýrslu frá IMD Business School. Í viðamikilli könnun sem skólinn gerði meðal stjórnenda fyrirtækja var Svanurinn jafnframt nefndur sérstaklega ásamt Bláa englinum í Þýskalandi sem fyrirmynd annarra merkja. Í skýrslunni er mælt með því að fyrirtæki haldi sig við umhverfismerki sem taka tillit til alls lífsferilsins, en líta ekki aðeins á einstaka þætti, svo sem orkunotkun. Einhliða merki geri neytendum erfitt fyrir að velja besta kostinn.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð í gær).