Svifryksagnir fósturmegin á fylgju

Talsvert magn af ögnum úr menguðu lofti, svo sem frá umferð, er að finna fósturmegin á fylgjum að því er fram kemur í nýrri rannsókn Hasselt háskóla í Belgíu. Fjöldi agnanna er jafnframt meiri eftir því sem hinar verðandi mæður hafa andað að sér meiru af menguðu lofti. Þetta þýðir að fóstur í móðurkviði komast í beina snertingu við agnir af þessu tagi. Áður hefur verið sýnt fram á tengsl loftmengunar við fósturlát, fyrirburafæðingar og lækkaða fæðingarþyngd, en þessar nýju niðurstöður gefa sterkari vísbendingar en áður um að agnirnar sjálfar hafi þessi áhrif frekar en að þau séu afleiðing bólgusvörunar í líkama móðurinnar. Höfundar rannsóknarinnar benda á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að draga úr loftmengun, en að verðandi mæður ættu jafnframt að halda sig sem fjærst stórum umferðaræðum og öðrum uppsprettum loftmengunar.
(Sjá frétt Guardian 17. september).

Staðbundnir gjaldmiðlar skapa ný tækifæri

Belgar sem fara sparlega með orku geta nú fengið umbun í formi sérstaks gjaldmiðils sem aðeins er hægt að nota til kaupa á umhverfisvænni vöru eða þjónustu í heimabyggðinni. Þar með er orðinn til tvöfaldur hvati til sparnaðar, því að orkureikningurinn lækkar að sjálfsögðu líka. Þetta er hluti af verkefninu INESPO (Innovative Instruments for Energy Saving Poilicies), sem hefur það m.a. að markmiði að draga úr óþarfri orkunotkun og stuðla að breyttri neysluhegðun. Staðbundnir gjaldmiðlar hafa víða verið teknir í notkun, en belgíska dæmið er sérstakt að því leyti að það tengist uppsetningu snjallmæla sem sýna hvar og hvenær orkan er notuð og gefa möguleika á hagstæðari orkukaupum þar sem verð er breytilegt eftir álagi.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu sænska ríkisútvarpsins 3. október).