Á tréfákum um Stokkhólm

Frá því í maí í vor hafa ferðamenn í Stokkhólmi átt þess kost að ferðast um borgina á reiðhjólum úr tré og kynna sér í leiðinni ýmis verkefni sem stuðla að sjálfbærni borgarinnar. Hjólin voru smíðum hjá grísku fyrirtæki sem alla jafna framleiðir umhverfisvæn rúm. Þau hafa reynst vel og dregið athygli að því sem hægt er að gera til að draga úr áhrifum mannsins á umhverfið. Aðstandendur verkefnisins hafa m.a. verið tilnefndir til sérstakra frumkvöðlaverðlauna Stokkhólmsborgar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 23. nóvember).

Nýtt námsefni um hættuleg efni

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur látið útbúa nýtt námsefni sem ætlað er að auðvelda nemendur 2.-6. bekkjar grunnskóla að kynna sér varúðarmerkingar á hættulegum efnum, skilja hvers vegna efnin eru hættuleg og læra hvernig hægt sé að verja sig gegn þessum hættum. Námsefnið nefnist „Húsið hennar Hönnu – og hinar leyndu hættur“ og er öllum aðgengilegt á netinu, án aðgangsorðs.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 18. september).

Umhverfisjóladagatal Svía komið á netið

joladagatalÍ dag er fyrsti dagurinn í flestum sjónvarps-, súkkulaði- og umhverfisjóladagatölum! Sænsku umhverfissamtökin Håll Sverige Rent hafa útbúið sérstakt umhverfisjóladagatal fyrir börn í 1.-6. bekk grunnskóla þar sem lögð er áhersla á skemmtilega fræðslu um sænsku umhverfismarkmiðin (hin svokölluðu Miljömål). Dagatalið er gefið út á netinu með leiðbeiningum fyrir kennara. Í fyrsta glugganum stendur „Hvað vitið þið mikið um fiska? Við ætlum að komast að því í dag“. Glugginn leiðir börnin svo á sérstaka síðu þar sem finna má fræðslu um fiska í hafinu í kringum Svíþjóð og í stöðuvötnum landsins. Dagurinn er tileinkaður umhverfismarkmiðinu um „Heilbrigð höf og vötn“.
(Sjá heimasíðu Håll Sverige Rent í dag).

Er hnattræn hlýnun hættulegri en loftslagsbreytingar?

climatechange_globalwarmingBandaríkjamenn hafa áhyggjur af hnattrænni hlýnun en er nokkuð sama um loftslagsbreytingar ef marka má niðurstöður samstarfsverkefnis háskólanna Yale og George Mason. Verkefnið leiddi í ljós að hugtökin tvö, hnattræn hlýnun og loftslagsbreytingar sem gjarnan eru notuð sem samheiti í daglegri umræðu, vekja mjög ólík viðbrögð hjá fólki. Þannig eru Bandaríkjamenn 13% líklegri til að líta á hnattræna hlýnun sem vandamál en loftslagsbreytingar. Fólk virðist tengja hnattræna hlýnun við bráðnum jökla, hækkandi sjávarborð, ofsaveður, o.s.frv. Hins vegar hefur hugtakið loftslagsbreytingar ekki þessa sömu skírskotun í hugum fólks. Munurinn er enn meiri meðal minnihlutahópa, kvenna og ungs fólks, en sem dæmi má nefna að Bandaríkjamenn af Suður-amerískum uppruna eru 30% líklegri til að telja sér stafa ógn af hnattrænni hlýnun en loftslagsbreytingum. Samkvæmt þessu skiptir miklu máli hvaða hugtök eru notuð þegar rætt er við fólk um þessi mál.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Loftslagsmál útskýrð á 9 mínútum

ipcc stuttmyndNý norsk stuttmynd sem útskýrir stöðu loftslagsmála á 9 mínútum var frumsýnd á loftslagsráðstefnunni í Varsjá á dögunum. Myndin, sem Snöball film gerði fyrir Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), hentar vel til að kynna loftslagsmál í skólum og annars staðar þar sem þörf er fyrir einfaldar og samþjappaðar útskýringar.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 22. nóvember).

Sjálfbærni fléttuð inn í öll námskeið

HandelshögskolanÁkveðið hefur verið að flétta áherslur sjálfbærrar þróunar inn í námsefni allra námsbrauta við Viðskiptaháskólann í Gautaborg. Nemendur við skólann hafa um árabil haft aðgang að námskeiðum um sjálfbæra þróun og tekið þátt í rannsóknum á því sviði, en héðan í frá verður séð til þess að allir kandidats- og meistaranemar læri um sjálfbæra þróun sem hluta af reglulegu námi. Skólayfirvöld telja þessa menntun mikilvægan lið í að undirbúa nemendur fyrir framtíðarstörf sín sem t.d. lögfræðingar, hagfræðingar og stjórnendur. Þeim sé nauðsynlegt að læra að skilja og fást við sífellt erfiðari siðferðilegar spurningar og þau flóknu hnattrænu viðfangsefni sem samfélagið stendur frammi fyrir.
(Sjá frétt á heimasíðu skólans 30. september).