Norski olíurisinn Statoil setti í dag á stofn sérstakan fjárfestingasjóð sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir 1,7 milljarða norskra króna (rúmlega 25 milljarða ísl. kr.) á næstu 4-7 árum. Gert er ráð fyrir að þetta fé verði einkum lagt í uppbyggingu vindorku á landi og á hafi, sólarorku, orkugeymslu, orkuflutning, orkusparnað og snjallnetslausnir fyrir raforku.
(Sjá frétt á heimasíðu Statoil í dag).
Greinasafn fyrir merki: Noregur
Rafvæðing skipa hafin hjá Kystverket
Strandlengjustofnun Noregs (Kystverket) hefur ákveðið að nota tvinntækni í fjölnotaskipinu OV Bøkfjord sem hefur verið í smíðum frá því á árinu 2014. Gengið var frá samningum við Rolls Royce rétt fyrir áramót um afhendingu á rafgeymum og öðrum búnaði sem þessu tengist. Breytingin mun seinka afhendingu skipsins, en Kystverket hyggst einnig gera kröfu um tvinntækni í systurskipi sem sett verður í útboðsferli á næstu vikum. Enn fremur er verið að skoða hvort mögulegt sé að breyta tveimur eldri skipum stofnunarinnar í tvinnskip, en með því móti ætti að vera hægt að draga verulega úr olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Áætlað er að stofnkostnaður hvers skips hækki um 15 milljónir norskra króna (um 225 millj. ísl. kr.) við þessa breytingu, en á móti er gert ráð fyrir allt að 25% sparnaði í eldsneytiskaupum sem þýðir að breytingin borgar sig upp á u.þ.b. 10 árum. Tvinntæknin gerir það mögulegt að nýta dísilvélar skipanna mun betur en ella, viðhaldsþörf minnkar og hægt verður að keyra skipin alfarið á rafmagni þegar þau liggja við bryggju og draga þannig úr hávaða og loftmengun.
(Sjá frétt Teknisk Ukeblad 5. janúar).
Oslóborg styrkir íbúa til kaupa á rafmagnshjólum
Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn í Osló hefur ákveðið að gefa borgarbúum kost á að sækja um styrki til kaupa á rafmagnsreiðhjólum. Styrkirnir geta numið 20% af kaupverði hjólanna, þó að hámarki 5.000 norskar krónur (um 75 þús. ísl. kr.) fyrir hvert hjól. Til að byrja með er gert ráð fyrir styrkveitingum upp á samtals 5 milljónir norskra króna, en fjárveitingin verður hugsanlega aukin ef reynslan er góð. Tilgangurinn með þessum styrkveitingum er að hvetja fólk til að nota rafmagnsreiðhjól fremur en einkabíla til að komast leiðar sinnar. Að sögn Lan Marie Nguyen Berg, formanns umhverfis- og samgönguráðs Oslóborgar, stefna borgaryfirvöld að því að finna nýjar og betri lausnir í samgöngum innan borgarinnar, m.a. með því að bæta innviði fyrir hjólaumferð. Borgin vill að fótgangandi fólk og hjólreiðamenn fái aðgang að svæðum sem hingað til hafa verið frátekin fyrir bílaumferð, en allt er þetta liður í að fylga eftir loftslagsstefnu Oslóborgar.
(Sjá frétt á heimasíðu Oslóborgar 20. desember).
Skíðaáburður í ánamöðkum
Mikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).
Snuðin stóðust prófið
Snuð sem seld eru í Noregi eru laus við krabbameinsvaldandi efni ef marka má úttekt sem Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) gerði á dögunum. Leitað var að nítrósamínum og nítrósamínmyndandi efnum í 18 tegundum af snuðum úr latexi og sílikoni sem keypt voru í norskum verslunum. Ekkert snuðanna reyndist innihalda slík efni. Flest nítrósamín eru krabbameinsvaldandi, en efni af þessu tagi leynast iðulega í vörum úr latexi og sílikoni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets 2. nóvember).
Norðmenn veiða rusl
Umhverfisstofnun Noregs hefur samið við fyrirtækið Salt Lofoten AS um að stýra tveggja ára tilraunaverkefni um veiðar á rusli í norskri lögsögu. Verkefnið er hluti af viðleitni aðildarríkja OSPAR-samningsins til að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem rusl hefur á lífríki sjávar. Fiskiskip sem taka þátt í verkefninu fá afhenta stórsekki sem þau safna í öllum úrgangi sem kemur upp með veiðarfærum. Fullum sekkjum er síðan skilað í höfnum sem þátt taka í verkefninu og þar verður innihaldið flokkað, skráð og komið í viðeigandi meðhöndlun. Markmiðið með verkefninu er ekki aðeins að fjarlægja rusl úr hafinu, heldur einnig að fræða sjómenn um umfang vandans, fá yfirlit yfir samsetningu úrgangsins og finna hentugar endurvinnsluleiðir. Stór hluti af ruslinu í hafinu er plast, gúmmí og málmar, sem allt á það sameiginlegt að brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni. Áætlað er að um 15% af því rusli sem fer í sjóinn reki á land, um 15% fljóti um og um 70% sökkvi til botns. Heildarmagnið fer vaxandi ár frá ári.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 23. ágúst).
Ríkissjóður Noregs dregur úr „svörtum fjárfestingum“
Norska ríkið hefur samþykkt að láta af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í fyrirtækjum og félögum sem byggja afkomu sína á kolavinnslu. Þessi ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr svörtum fjárfestingum. Samþykktin þýðir að norska ríkið mun selja eignir upp á u.þ.b. 8 milljarða Bandaríkjadala (um 1.000 milljarða ísl. kr.) og mun aðgerðin hafa áhrif á rúmlega 120 fyrirtæki sem stunda vinnslu jarðefnaeldsneytis. Ráðamenn í Noregi segja ákvörðunina ekki einungis vera tekna til að reyna að sporna við loftslagsvandanum heldur séu slíkar fjárfestingar einnig áhættusamar vegna sífellt strangari krafna Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frjáls félagasamtök sem hafa beitt sér fyrir fjárlosun (e. divestment) í jarðefnaeldsneytisgeiranum telja að ákvörðun Norðmanna muni gefa tóninn fyrir önnur ríki og fjárfestingarsjóði.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Skaðleg flúorsambönd í barnaúlpum
Sex barnaúlpur sem norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) rannsökuðu á dögunum reyndust allar innihalda skaðleg flúorsambönd sem geta verið krabbameinsvaldandi eða haft áhrif á æxlun og þroska. Úlpa frá norska framleiðandanum Helly Hansen kom verst út, en hún innihélt meðal annars PFOA (perflúoroktansýru) ásamt mörgum fleiri flúorsamböndum. Notkun PFOA var bönnuð í Noregi á síðasta ári, en það útilokar ekki að efnið finnist í vörum sem framleiddar voru fyrir 2014. Flúorsamböndin sem um ræðir hafa m.a. verið notuð í föt, skó og matarumbúðir. Erfitt er fyrir neytendur að forðast efnin þar sem þessir vöruflokkir eru ekki endilega með innihaldsmerkingum. Efnin brotna hægt niður í líkamanum og geta meðal annars komist frá móður til barns í gegnum naflastreng og móðurmjólk. Norðmenn og Þjóðverjar hafa lagt til að notkun PFOA og líkra efna verði bönnuð innan ESB.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 8. apríl).
Hjólbarðar stærsti hluti míkróplasts í Noregi
Um 8.000 tonn af míkróplasti berast árlega frá landi til sjávar í Noregi samkvæmt nýrri samantekt sem ráðgjafafyrirtækið Mepex tók saman fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Greining á uppruna leiddi í ljós að rúmur fjórðungur, eða um 2.250 tonn, átti rætur að rekja til slits á hjólbörðum. Um 650 tonn af míkróplasti komu frá viðhaldi og málun skipa og frístundabáta og um 400 tonn voru mengun frá plastframleiðslu. Ófullnægjandi úrgangsstjórnun skilar um 100 tonnum af míkróplasti í norska lögsögu árlega, en neytendavörur gefa aðeins frá sér um 4 tonn. Mikil umræða hefur verið um míkróplast í neytendavörum enda er notkun plastsins óþörf, auk þess sem neytendur geta haft bein áhrif á magnið með því að sniðganga slíkar vörur. Í rannsókninni var lögð áhersla á þrjár mismunandi farleiðir míkróplasts af landi í sjó, þ.e.a.s. með lofti, með skólpi og með yfirborðsvatni.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).
Lúsalyf ógnar lífríki sjávar
Lúsalyf sem notuð eru í fiskeldi ógna lífrríki sjávar á nærliggjandi svæðum samkvæmt nýrri norskri rannsókn. Í rannsókninni kom fram að styrkur lúsalyfsins teflúbensúróns í grennd við laxeldisstöðvar getur verið nógu hár til að drepa vissar tegundir krabbadýra, rækju og humars, en efnið hefur áhrif á myndun kítíns sem er uppbyggingarefnið í skeljum slíkra dýra. Í rannsókninni var lax í eldisstöð, þar sem teflúbensúrón hafði ekki verið notað áður, meðhöndlaður með lyfinu í 7 daga og síðan fylgst með seti, vatni og lífríki nálægt stöðinni næstu tvær vikur, auk stakra mælinga nokkrum mánuðum síðar. Mælingarnar sýndu að helmingunartími teflúbensúróns í seti er um 170 dagar, en styrkur efnisins var þó kominn niður fyrir hættumörk strax um tveimur vikum eftir meðferð. Styrkurinn í krabbadýrum og fiski frá nálægum svæðum reyndist ekki svo hár að hættulegt sé talið fyrir menn að neyta sjávarfangsins.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. febrúar).