Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).
Greinasafn fyrir merki: Miljødirektoratet
Skíðaáburður í ánamöðkum
Mikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).
Snuðin stóðust prófið
Snuð sem seld eru í Noregi eru laus við krabbameinsvaldandi efni ef marka má úttekt sem Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) gerði á dögunum. Leitað var að nítrósamínum og nítrósamínmyndandi efnum í 18 tegundum af snuðum úr latexi og sílikoni sem keypt voru í norskum verslunum. Ekkert snuðanna reyndist innihalda slík efni. Flest nítrósamín eru krabbameinsvaldandi, en efni af þessu tagi leynast iðulega í vörum úr latexi og sílikoni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets 2. nóvember).
Norðmenn veiða rusl
Umhverfisstofnun Noregs hefur samið við fyrirtækið Salt Lofoten AS um að stýra tveggja ára tilraunaverkefni um veiðar á rusli í norskri lögsögu. Verkefnið er hluti af viðleitni aðildarríkja OSPAR-samningsins til að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem rusl hefur á lífríki sjávar. Fiskiskip sem taka þátt í verkefninu fá afhenta stórsekki sem þau safna í öllum úrgangi sem kemur upp með veiðarfærum. Fullum sekkjum er síðan skilað í höfnum sem þátt taka í verkefninu og þar verður innihaldið flokkað, skráð og komið í viðeigandi meðhöndlun. Markmiðið með verkefninu er ekki aðeins að fjarlægja rusl úr hafinu, heldur einnig að fræða sjómenn um umfang vandans, fá yfirlit yfir samsetningu úrgangsins og finna hentugar endurvinnsluleiðir. Stór hluti af ruslinu í hafinu er plast, gúmmí og málmar, sem allt á það sameiginlegt að brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni. Áætlað er að um 15% af því rusli sem fer í sjóinn reki á land, um 15% fljóti um og um 70% sökkvi til botns. Heildarmagnið fer vaxandi ár frá ári.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 23. ágúst).