Norska ríkið fyrir rétt vegna olíuborana

Á morgun hefjast söguleg réttarhöld í Osló, þar sem tekist verður á um það hvort ný leyfi sem norsk stjórnvöld hafa veitt til olíuvinnslu í Barentshafi standist 112. grein norsku stjórnarskrárinnar um rétt komandi kynslóða til heilsusamlegs og öruggs umhverfis. Dómsmálið, sem er hið fyrsta sinnar tegunar, er höfðað af samtökunum Greenpeace og Nature and Youth. Samtökin halda því fram að með því að leyfa þessa starfsemi stefni norsk stjórnvöld fólki og umhverfi í verulega hættu, auk þess sem leyfisveitingarnar stríði gegn Parísarsamkomulaginu. Meðal þeirra sem komnir eru til Oslóar til að fylgjast með réttarhöldunum eru fulltrúar Fiji, sem er í hópi þeirra eyþjóða sem stafar mest ógn af loftslagsbreytingum. Fiji er einmitt í forsæti loftslagsráðstefnunnar (COP23) sem nú stendur yfir í Bonn.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag).

Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn

oslohofn-160Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).

Osló stefnir að helmingssamdrætti á fjórum árum

74814-160Borgaryfirvöld í Osló kynntu á dögunum „loftslagsfjárlög“ næstu ára þar sem fram kemur hvernig ná skuli losun gróðurhúsalofttegunda í borginni niður fyrir 600.000 tonn árið 2020 í samræmi við markmið sem borgin setti sér fyrr á þessu ári. Árið 2014 nam losunin 1,4 milljón tonna og er ekki vitað til að nokkur borg eða ríki hafi áður tekið svo róttæka ákvörðun um samdrátt í losun. Enn fremur er stefnt að því að Osló verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Þessum skjóta árangri á m.a. að ná með því að hækka veggjöld á bíla sem aka inn í borgina, fækka bílastæðum, útrýma olíukyndingu á heimilum og skrifstofum, skipta út almenningsfarartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og fjölga enn hjólreiðastígum. Nýlunda þykir að flétta aðgerðir til að draga úr losun inn í fjárhagsáætlun borga eins og gert er í Osló, en einn af aðstoðarborgarstjórum borgarinnar orðar það svo að „þau ætli að telja kolefni eins og aðrir telja peninga“. Ef markmiðið næst vonast borgaryfirvöld til að árangur Oslóar verði öðrum borgum hvatning.
(Sjá frétt PlanetArk 29. september).

Oslóborg styrkir íbúa til kaupa á rafmagnshjólum

052A1669m_doc6nltg50nb1szj5jv19g-UYxkIXj7q0Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn í Osló hefur ákveðið að gefa borgarbúum kost á að sækja um styrki til kaupa á rafmagnsreiðhjólum. Styrkirnir geta numið 20% af kaupverði hjólanna, þó að hámarki 5.000 norskar krónur (um 75 þús. ísl. kr.) fyrir hvert hjól. Til að byrja með er gert ráð fyrir styrkveitingum upp á samtals 5 milljónir norskra króna, en fjárveitingin verður hugsanlega aukin ef reynslan er góð. Tilgangurinn með þessum styrkveitingum er að hvetja fólk til að nota rafmagnsreiðhjól fremur en einkabíla til að komast leiðar sinnar. Að sögn Lan Marie Nguyen Berg, formanns umhverfis- og samgönguráðs Oslóborgar, stefna borgaryfirvöld að því að finna nýjar og betri lausnir í samgöngum innan borgarinnar, m.a. með því að bæta innviði fyrir hjólaumferð. Borgin vill að fótgangandi fólk og hjólreiðamenn fái aðgang að svæðum sem hingað til hafa verið frátekin fyrir bílaumferð, en allt er þetta liður í að fylga eftir loftslagsstefnu Oslóborgar.
(Sjá frétt á heimasíðu Oslóborgar 20. desember).

Skíðaáburður í ánamöðkum

width_680.height_330.mode_crop.Anchor_TopleftMikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).

Osló losar allt sitt fé úr jarðefnaeldsneytisgeiranum

oslodivest750 (160x84)Osló er fyrsta höfuðborgin í heiminum sem ákveður að losa um allar fjárfestingar sínar í kola-, olíu- og gasfyrirtækjum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þetta þýðir að fjárfesting upp á 9 milljarða Bandaríkjadala (um 1.125 milljarða ísl. kr.) verður færð úr jarðefnaeldsneyti í aðrar greinar. Þessi fjárlosun er hluti af málefnasamningi nýs meirihluta græningja, jafnaðarmanna og vinstri manna í borgarstjórn. Áður hafa 45 borgarstjórnir víða um heim tekið sambærilega ákvörðun um fjárlosun, en sem fyrr segir er Osló fyrsta höfuðborgin sem stígur þetta skref.
(Sjá frétt EcoWatch 19. október).

Afísingarefni spilla jarðvegi og grunnvatni við flugvelli

flugvollur_160Efni á borð við própýlenglýkól og kalíumformat sem notuð eru við afísingu flugvéla og flugbrauta spilla jarðvegi og grunnvatni í nánd við flugvelli. Áhrifanna gætir helst á vorin þegar snjóa leysir en þá berst mikið af efnunum út í jarðveginn. Efnin brotna niður í jarðvegi með hjálp örvera, en örverurnar nota mikið súrefni og því er jarðvegur og vatn í kringum flugvelli mjög súrefnissnautt. Starfsemi í slíkum jarðvegi er lítil og því gerir hann lítið gagn við síun vatns og aðra vistkerfaþjónustu sem jarðvegur veitir alla jafna. Í skýrslu jarðvísindadeildar Friedrich Schiller University Jena um þessi áhrif eru taldar upp leiðir til að draga úr skaðsemi afísingarefnis, svo sem með því að stjórna flæði þess í jarðveg í leysingum, dæla súrefni í jarðveginn og koma efnunum í snertingu við örverur áður en þau sleppa út í náttúruna. Skýrslan er byggð á rannsókn sem gerð var á alþjóða flugvellinum í Osló, sem staðsettur er nærri vatnsbóli borgarbúa.
(Sjá frétt Science Daily í dag).