Á tréfákum um Stokkhólm

Frá því í maí í vor hafa ferðamenn í Stokkhólmi átt þess kost að ferðast um borgina á reiðhjólum úr tré og kynna sér í leiðinni ýmis verkefni sem stuðla að sjálfbærni borgarinnar. Hjólin voru smíðum hjá grísku fyrirtæki sem alla jafna framleiðir umhverfisvæn rúm. Þau hafa reynst vel og dregið athygli að því sem hægt er að gera til að draga úr áhrifum mannsins á umhverfið. Aðstandendur verkefnisins hafa m.a. verið tilnefndir til sérstakra frumkvöðlaverðlauna Stokkhólmsborgar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 23. nóvember).

Fleiri reiðhjól en bílar á götum Kaupmannahafnar

5210-160x96Í nóvember voru reiðhjól á götum Kaupmannahafnar í fyrsta sinn fleiri en bílarnir. Samkvæmt umferðartalningu fóru að meðaltali 265.700 hjól um miðborgina á hverjum degi mánaðarins en aðeins 252.600 bílar. Á einu ári hefur hjólaumferð í borginni aukist um 15% á sama tíma og bílaumferð hefur dregist saman um 1%. Forsvarsmenn borgarinnar telja að þessa þróun megi fyrst og fremst rekja til markvissrar stefnumótunar og mikilla fjárfestinga í innviðum fyrir umferð reiðhjóla.
(Sjá frétt The Guardian 30. nóvember).

Nissan Leaf umhverfisvænstur að mati Svía

IMG_7867 copyRafbíllinn Nissan Leaf er umhverfisvænsti bíllinn á sænskum markaði að mati dómnefndar samtakanna Gröna bilister. Samtals voru 35 tegundir bíla tilnefndar í tveimur flokkum, annars vegar sem besti bíllinn fyrir fólk með venjulegar tekjur og hins vegar sem besti fyrirtækjabíllinn. Nissan Leaf stóð uppi sem sigurvegari í báðum flokkum, en í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram að þetta sé mest seldi rafbíll í heimi, að drægni 2016-árgerðarinnar sé meira en áður og dugi nú í flestar ferðir, að bíllinn fái hæstu mögulegu einkunn fyrir öryggi og sé talsvert ódýrari en keppinautarnir. Í umsögn um fyrirtækjabíla kemur einnig fram að Nissan Leaf hafi meiri markaðslega þýðingu en flestir keppinautanna, þar sem hann sé auðþekktur frá hefðbundnum bílum. Þegar úrslitin voru kynnt minnti Johanna Grant, formaður Gröna bilister, á að umhverfisvænsti bílstjórinn sitji ekki alltaf í umhverfisvænsta bílnum, því að besti kosturinn sé að ferðast á hjóli eða í lest, sé þess kostur.
(Sjá fréttatilkynningu Gröna bilister 1. febrúar).

Oslóborg styrkir íbúa til kaupa á rafmagnshjólum

052A1669m_doc6nltg50nb1szj5jv19g-UYxkIXj7q0Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn í Osló hefur ákveðið að gefa borgarbúum kost á að sækja um styrki til kaupa á rafmagnsreiðhjólum. Styrkirnir geta numið 20% af kaupverði hjólanna, þó að hámarki 5.000 norskar krónur (um 75 þús. ísl. kr.) fyrir hvert hjól. Til að byrja með er gert ráð fyrir styrkveitingum upp á samtals 5 milljónir norskra króna, en fjárveitingin verður hugsanlega aukin ef reynslan er góð. Tilgangurinn með þessum styrkveitingum er að hvetja fólk til að nota rafmagnsreiðhjól fremur en einkabíla til að komast leiðar sinnar. Að sögn Lan Marie Nguyen Berg, formanns umhverfis- og samgönguráðs Oslóborgar, stefna borgaryfirvöld að því að finna nýjar og betri lausnir í samgöngum innan borgarinnar, m.a. með því að bæta innviði fyrir hjólaumferð. Borgin vill að fótgangandi fólk og hjólreiðamenn fái aðgang að svæðum sem hingað til hafa verið frátekin fyrir bílaumferð, en allt er þetta liður í að fylga eftir loftslagsstefnu Oslóborgar.
(Sjá frétt á heimasíðu Oslóborgar 20. desember).

Gamlir reiðhjólahlutar knýja grænt hagkerfi

guatemala_160Gamlir hlutar úr reiðhjólum eru undirstaða starfsemi Maya Pedal en samtökin, sem starfrækt eru í Gvatemala, hanna og smíða svokallaðar reiðhjólavélar sem auðvelda íbúum verk sem krefjast mikils vinnuafls. Reiðhjólavélarnar nýtast meðal annars við að dæla vatni úr brunnum, mala maís og búa til kjúklingafóður og geta þannig hámarkað afkastagetu lítilla fjölskyldufyrirtækja. Maya Pedal hefur þróað 19 reiðhjólavélar sem nýtast til mismunandi verka. Meðaldagslaun íbúa í Gvatemala eru um 3 dollarar (um 400 ísl. kr.) og um 54% þjóðarinnar búa undir fátæktarmörkum. Smávægileg aukning afkastagetu á heimilum getur haft talsverð áhrif á afkomu fjölskyldna og aukið þannig lífsgæði. Einnig geta eigendur reiðhjólavélanna lækkað rafmagnsreikningana sína svo um munar og þar með aukið ráðstöfunartekjurnar enn frekar.
(Sjá frétt TakePart 10. mars).