Lúsalyf ógnar lífríki sjávar

salmon_160Lúsalyf sem notuð eru í fiskeldi ógna lífrríki sjávar á nærliggjandi svæðum samkvæmt nýrri norskri rannsókn. Í rannsókninni kom fram að styrkur lúsalyfsins teflúbensúróns í grennd við laxeldisstöðvar getur verið nógu hár til að drepa vissar tegundir krabbadýra, rækju og humars, en efnið hefur áhrif á myndun kítíns sem er uppbyggingarefnið í skeljum slíkra dýra. Í rannsókninni var lax í eldisstöð, þar sem teflúbensúrón hafði ekki verið notað áður, meðhöndlaður með lyfinu í 7 daga og síðan fylgst með seti, vatni og lífríki nálægt stöðinni næstu tvær vikur, auk stakra mælinga nokkrum mánuðum síðar. Mælingarnar sýndu að helmingunartími teflúbensúróns í seti er um 170 dagar, en styrkur efnisins var þó kominn niður fyrir hættumörk strax um tveimur vikum eftir meðferð. Styrkurinn í krabbadýrum og fiski frá nálægum svæðum reyndist ekki svo hár að hættulegt sé talið fyrir menn að neyta sjávarfangsins.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. febrúar).

Gríðarleg aukning á notkun lúsameðala í norsku fiskeldi

Norskar laxakvíar MDNotkun lúsameðalanna díflúbensúrón og teflúbensúrón í norsku fiskeldi tvöfaldaðist á milli áranna 2011 og 2012 og aftur á milli áranna 2012 og 2013. Efnin eru skaðleg fyrir rækjur, krabba og aðrar lífverur í grennd við laxaeldisstöðvarnar, og dæmi eru um að teflúbensúrón hafi greinst í sýnum í allt að kílómetra fjarlægð frá næstu laxakví. Síðustu ár hafa þessi efni m.a. greinst í villtum fiski, setlögum og botndýrum. Villtum laxfiskum stafar mikil hætta af lúsasmiti frá laxeldisstöðvum, en þessi mikla aukning á notkun lúsameðala virðist ekki hafa dugað til að draga úr smithættunni að neinu ráði. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) telur brýnt að leita nýrra leiða til að bregðast við þessari ógn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet 4. mars).