Fjárfestar gætu tapað 260 þúsund milljörðum

3000Á næstu 10 árum gætu fjárfestar tapað allt að 2.000 milljörðum Bandaríkjadala (um 260.000 milljörðum ísl. kr.) af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtæki og verkefni í jarðefnaeldsneytisgeiranum, þ.e.a.s. ef leiðtogar þjóða heims ná samkomulagi í París í næsta mánuði um aðgerðir sem duga til að halda hitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C. Til að ná því marki þarf að draga hratt og mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þýðir m.a. að engin þörf verður fyrir nýjar kolanámur og að eftirspurn eftir olíu mun minnka eftir 2020. Því verða mörg áformuð verkefni tilgangslaus og óarðbær, m.a. olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og vinnsla á tjörusandi. Þetta kemur fram í skýrslu hugveitunnar Carbon Tracker sem kynnt var í vikunni. Framkvæmdastjóri Carbon Tracker hafði á orði þegar skýrslan var kynnt að viðskiptasagan væri vörðuð dæmum af fyrirtækjum á borð við Kodak, sem hefðu ekki áttað sig á yfirvofandi breytingum og því setið eftir. Skýrslan fæli í sér viðvörun til fyrirtækja í jarðefnaeldsneytisgeiranum um hættuna á verulegu verðmætatapi sem komast mætti hjá.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

BP viðurkennir tilvist óbrennanlegrar olíu

29141Spencer Dale, yfirhagfræðingur olíurisans BP, sagði í ræðu í London á dögunum að stór hluti af þekktum olíu-, gas- og kolabirgðum heimsins verði að liggja í jörðu um ókomin ár til að koma í veg fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til hitastigshækkunar umfram 2°C. Þetta er afdráttarlausasta yfirlýsingin af þessu tagi frá stóru olíufélögunum enn sem komið er. Í ræðunni vakti Spencer Dale sérstaklega athygli á að inn í þennan reikning væri hvorki búið að taka þær fjölmörgu lindir sem væru að finnast þessi misserin né allt það jarðefnaeldsneyti sem enn væri hvergi skráð sem slíkt. Aðilar á borð við Alþjóðabankann og G20-hópinn hafa lýst áhyggjum af fjárfestingum sem nú þegar kunni að vera strandaðar í olíuverkefnum sem aldrei muni skila arði.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Ríkissjóður Noregs dregur úr „svörtum fjárfestingum“

deinvestNorska ríkið hefur samþykkt að láta af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í fyrirtækjum og félögum sem byggja afkomu sína á kolavinnslu. Þessi ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr svörtum fjárfestingum. Samþykktin þýðir að norska ríkið mun selja eignir upp á u.þ.b. 8 milljarða Bandaríkjadala (um 1.000 milljarða ísl. kr.) og mun aðgerðin hafa áhrif á rúmlega 120 fyrirtæki sem stunda vinnslu jarðefnaeldsneytis. Ráðamenn í Noregi segja ákvörðunina ekki einungis vera tekna til að reyna að sporna við loftslagsvandanum heldur séu slíkar fjárfestingar einnig áhættusamar vegna sífellt strangari krafna Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frjáls félagasamtök sem hafa beitt sér fyrir fjárlosun (e. divestment) í jarðefnaeldsneytisgeiranum telja að ákvörðun Norðmanna muni gefa tóninn fyrir önnur ríki og fjárfestingarsjóði.
(Sjá frétt the Guardian í dag).