Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga

md-byggplass-160x78Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).

Oslóborg styrkir íbúa til kaupa á rafmagnshjólum

052A1669m_doc6nltg50nb1szj5jv19g-UYxkIXj7q0Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn í Osló hefur ákveðið að gefa borgarbúum kost á að sækja um styrki til kaupa á rafmagnsreiðhjólum. Styrkirnir geta numið 20% af kaupverði hjólanna, þó að hámarki 5.000 norskar krónur (um 75 þús. ísl. kr.) fyrir hvert hjól. Til að byrja með er gert ráð fyrir styrkveitingum upp á samtals 5 milljónir norskra króna, en fjárveitingin verður hugsanlega aukin ef reynslan er góð. Tilgangurinn með þessum styrkveitingum er að hvetja fólk til að nota rafmagnsreiðhjól fremur en einkabíla til að komast leiðar sinnar. Að sögn Lan Marie Nguyen Berg, formanns umhverfis- og samgönguráðs Oslóborgar, stefna borgaryfirvöld að því að finna nýjar og betri lausnir í samgöngum innan borgarinnar, m.a. með því að bæta innviði fyrir hjólaumferð. Borgin vill að fótgangandi fólk og hjólreiðamenn fái aðgang að svæðum sem hingað til hafa verið frátekin fyrir bílaumferð, en allt er þetta liður í að fylga eftir loftslagsstefnu Oslóborgar.
(Sjá frétt á heimasíðu Oslóborgar 20. desember).

Rafhjól leysa einkabílinn af hólmi

elcyklar_2Árið 2030 er líklegt að notkun rafhjóla í Þýskalandi muni koma í veg fyrir losun á um 1,5 milljónum tonna af koltvísýringi, eða sem samsvarar losun frá um 100.000 manna bæjarfélagi, ef marka má nýja greiningu Háskólans í Braunschweig á atferli rafhjólanotenda. Þar kom fram að rafhjól séu oftast notuð í stað einkabíla en leysi sjaldnar venjuleg reiðhjól af hólmi. Rafhjól eru samkvæmt rannsókninni mest notuð til að ferðast til og frá vinnu. Í dag eru um 2 milljónir rafhjóla í notkun í Þýskalandi og er ferðamátinn orðinn vinsæll þar í landi. Niðurstöður greiningarinnar gefa einnig til kynna að til þess að fjölga rafhjólum þurfi að bæta innviði, svo sem hjólastíga og hjólastæði sem henta þörfum rafhjólanotenda.
(Sjá frétt Sveriges Radio 2. september).