Mikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).