Um 8.000 tonn af míkróplasti berast árlega frá landi til sjávar í Noregi samkvæmt nýrri samantekt sem ráðgjafafyrirtækið Mepex tók saman fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Greining á uppruna leiddi í ljós að rúmur fjórðungur, eða um 2.250 tonn, átti rætur að rekja til slits á hjólbörðum. Um 650 tonn af míkróplasti komu frá viðhaldi og málun skipa og frístundabáta og um 400 tonn voru mengun frá plastframleiðslu. Ófullnægjandi úrgangsstjórnun skilar um 100 tonnum af míkróplasti í norska lögsögu árlega, en neytendavörur gefa aðeins frá sér um 4 tonn. Mikil umræða hefur verið um míkróplast í neytendavörum enda er notkun plastsins óþörf, auk þess sem neytendur geta haft bein áhrif á magnið með því að sniðganga slíkar vörur. Í rannsókninni var lögð áhersla á þrjár mismunandi farleiðir míkróplasts af landi í sjó, þ.e.a.s. með lofti, með skólpi og með yfirborðsvatni.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).