Hollenskt sprotafyrirtæki hefur þróað búnað og þjálfunarkerfi til að kenna krákum að tína upp sígarettustubba. Árlega henda jarðarbúar frá sér samtals um 4.500 milljörðum stubba og allir innihalda þeir eiturefni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu. Stubba er einkum að finna í þéttbýli og því hentar best að þjálfa dýr til verksins, sem eru vön borgarlífinu. Upphaflega átti að nota dúfur en þær þóttu ekki nógu námsfúsar. Ætlunin er að kenna krákunum að skila stubbunum í þar til gerðan krákubar þar sem sjálfvirkur búnaður skammtar mat eftir að hafa gengið úr skugga um að stubburinn sé raunverulega stubbur en ekki einhver annar úrgangur.
(Sjá frétt IFL Science 13. október).
Greinasafn fyrir merki: rusl
Norðmenn veiða rusl
Umhverfisstofnun Noregs hefur samið við fyrirtækið Salt Lofoten AS um að stýra tveggja ára tilraunaverkefni um veiðar á rusli í norskri lögsögu. Verkefnið er hluti af viðleitni aðildarríkja OSPAR-samningsins til að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem rusl hefur á lífríki sjávar. Fiskiskip sem taka þátt í verkefninu fá afhenta stórsekki sem þau safna í öllum úrgangi sem kemur upp með veiðarfærum. Fullum sekkjum er síðan skilað í höfnum sem þátt taka í verkefninu og þar verður innihaldið flokkað, skráð og komið í viðeigandi meðhöndlun. Markmiðið með verkefninu er ekki aðeins að fjarlægja rusl úr hafinu, heldur einnig að fræða sjómenn um umfang vandans, fá yfirlit yfir samsetningu úrgangsins og finna hentugar endurvinnsluleiðir. Stór hluti af ruslinu í hafinu er plast, gúmmí og málmar, sem allt á það sameiginlegt að brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni. Áætlað er að um 15% af því rusli sem fer í sjóinn reki á land, um 15% fljóti um og um 70% sökkvi til botns. Heildarmagnið fer vaxandi ár frá ári.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 23. ágúst).
Sveitarfélög kalla eftir aukinni ábyrgð tyggjóframleiðanda
Samtök breskra sveitarfélaga (Local Government Association (LGA)) hafa skorað á tyggjóframleiðendur að taka þátt í hreinsunarkostnaði vegna tyggigúmmís á götum borga og bæja. Sveitarfélög í Bretlandi eyða árlega um 60 milljónum breskra punda (um 11 milljörðum ísl. kr.) í að hreinsa upp tyggigúmmi, enda er talið að í þéttbýliskjörnum megi á hverjum tíma finna um 25 tyggjóklessur á hvern lengdarmetra gangstéttar. Hvert tyggjó kostar neytandann um 3 bresk penní (um 6 ísl. kr.) en hins vegar kostar það yfirvöld um 1,5 pund (um 290 ísl. kr.) að hreinsa upp hverja klessu. Hingað til hafa tyggjóframleiðendur lagt nokkra áherslu á að hvetja fólk til að henda notuðu tyggjói í ruslatunnur, en hafa lítið sinnt um þátttöku í hreinsikostnaði. Venjulegt tyggjó brotnar alls ekki niður í náttúrunni og hefur LGA hvatt framleiðendur til að þróa tyggjó sem er umhverfisvænna að þessu leyti.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Rusl á fjörum kostar íbúa stórfé
Íbúar Orange County í Kaliforníu eyða tugum milljóna dollara árlega í að komast hjá því að eyða sumrinu á ströndum þar sem mikið er um rusl, að því er fram kemur í nýrri rannsókn bandarísku sjávar- og andrúmsloftsstofnunarinnar (NOAA). Útgjöldin felast í ferðakostnaði fólks sem fer um langan veg í leit að hreinni ströndum, enda virðist hreinleikinn skipta fólk mestu máli við val á strandsvæðum til útivistar. Ef takast má að minnka úrgangsmagn á ströndum sýslunnar um 25% gæti samanlagður sparnaður íbúa numið allt að 32 milljónum Bandaríkjadala á hverju sumri (um 3,7 milljörðum ísl. kr). Með því að koma í veg fyrir að úrgangur endi í hafinu er því dregið úr kostnaði íbúa á sama tíma og vistkerfi hafs og stranda eru vernduð.
(Sjá frétt ENN 12. ágúst).
Á að banna sígarettufiltera?
Til greina kemur að banna sígarettufiltera, setja skilagjald á sígarettustubba, merkja sígarettupakka með viðvörunum um umhverfisáhrif og gera framleiðendur ábyrga fyrir hreinsun. Þetta eru nokkrar þeirra aðgerða sem vísindamenn stinga upp á til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif sígarettustubba á umhverfið. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við ríkisháskólann í San Diego í Bandaríkjunum er 75% af þeim 6 billjónum sígaretta sem framleiddar eru árlega hent út í náttúruna að notkun lokinni. Tóbaksvörur innihalda meðal annars nikótín, varnarefni, arsen, blý og etýlfenól, en öll þessi efni geta haft bráð eiturhrif á lífverur. Sígarettufilterar innihalda auk þess plasteindir sem brotna hægt niður.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
App til að skrá rusl í fjörum
Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) hefur útbúið sérstakt snjallsímaforrit („App“) sem fólk getur notað til að skrá rusl sem það finnur á fjörum í sérstakan gagnagrunn. Þannig verða smátt og smátt til upplýsingar sem gera mönnum auðveldara fyrir að átta sig á umfangi vandans og taka vel ígrundaðar ákvarðanir um aðgerðir.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 3. mars).
Everestfarar skyldaðir til að hreinsa fjallið
Frá og með aprílmánuði þurfa Everestfarar að taka með sér 8 kg af rusli á leið sinni niður af fjallinu, umfram sinn eigin farangur. Þetta er liður í viðleitni stjórnvalda í Nepal til að hreinsa hlíðar fjallsins, en þar hefur safnast upp gríðarlegt magn af úrgangi á síðustu árum, þ.m.t. súrefnis- og gaskútar, kaðlar, tjöld, gleraugu, bjórdósir, plastrusl og mannvistarleifar af ýmsu tagi. Þeir sem hlýða ekki þessum nýju reglum verða sektaðir eða þeim refsað á annan hátt.
(Sjá frétt The Guardian 3. mars).
Vaxandi rusl á breskum fjörum
Rusl á breskum fjörum jókst um 12% milli áranna 2011 og 2012, mælt í fjölda hluta á hvern kílómetra strandlengjunnar. Mest varð aukningin á rusli frá reykingamönnum. Þannig fjölgaði kveikjurum og sígarettupökkum um 90% á milli ára og fjöldi sígarettufiltera tvöfaldaðist. Á einni helgi í september í fyrra fylltu sjálfboðaliðar 1.800 sorpsekki með rusli á 90 km strandlengju, og reyndust um 65% af ruslinu vera plast af einhverju tagi. Þetta veldur sérstökum áhyggjum, þar sem plastið brotnar seint eða ekki niður í náttúrunni. Svo virðist sem áratugalöng viðleitni til að bæta umgengni fólks hafi ekki skilað miklum árangri.
(Sjá frétt The Guardian í gær).