Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn í Osló hefur ákveðið að gefa borgarbúum kost á að sækja um styrki til kaupa á rafmagnsreiðhjólum. Styrkirnir geta numið 20% af kaupverði hjólanna, þó að hámarki 5.000 norskar krónur (um 75 þús. ísl. kr.) fyrir hvert hjól. Til að byrja með er gert ráð fyrir styrkveitingum upp á samtals 5 milljónir norskra króna, en fjárveitingin verður hugsanlega aukin ef reynslan er góð. Tilgangurinn með þessum styrkveitingum er að hvetja fólk til að nota rafmagnsreiðhjól fremur en einkabíla til að komast leiðar sinnar. Að sögn Lan Marie Nguyen Berg, formanns umhverfis- og samgönguráðs Oslóborgar, stefna borgaryfirvöld að því að finna nýjar og betri lausnir í samgöngum innan borgarinnar, m.a. með því að bæta innviði fyrir hjólaumferð. Borgin vill að fótgangandi fólk og hjólreiðamenn fái aðgang að svæðum sem hingað til hafa verið frátekin fyrir bílaumferð, en allt er þetta liður í að fylga eftir loftslagsstefnu Oslóborgar.
(Sjá frétt á heimasíðu Oslóborgar 20. desember).