Skaðleg flúorsambönd í barnaúlpum

barnejakke_160Sex barnaúlpur sem norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) rannsökuðu á dögunum reyndust allar innihalda skaðleg flúorsambönd sem geta verið krabbameinsvaldandi eða haft áhrif á æxlun og þroska. Úlpa frá norska framleiðandanum Helly Hansen kom verst út, en hún innihélt meðal annars PFOA (perflúoroktansýru) ásamt mörgum fleiri flúorsamböndum. Notkun PFOA var bönnuð í Noregi á síðasta ári, en það útilokar ekki að efnið finnist í vörum sem framleiddar voru fyrir 2014. Flúorsamböndin sem um ræðir hafa m.a. verið notuð í föt, skó og matarumbúðir. Erfitt er fyrir neytendur að forðast efnin þar sem þessir vöruflokkir eru ekki endilega með innihaldsmerkingum. Efnin brotna hægt niður í líkamanum og geta meðal annars komist frá móður til barns í gegnum naflastreng og móðurmjólk. Norðmenn og Þjóðverjar hafa lagt til að notkun PFOA og líkra efna verði bönnuð innan ESB.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 8. apríl).