Hvaðan sem vindurinn blæs!

Tveir MSc-stúdentar við Háskólann í Lancaster hafa þróað nýja gerð af vindmyllu sem getur nýtt vind úr hvaða átt sem er, lóðréttri sem láréttri. Þetta getur opnað möguleika á að nýta vindstrengi í borgum, t.d. við háhýsi, til raforkuframleiðslu. Um leið verður það fýsilegra en áður að framleiða raforku í smáum stíl, annað hvort til eigin nota eða til sölu inn á raforkunetið, t.d. með því að koma vindmyllum fyrir utan á byggingum þar sem uppstreymi eða niðurstreymi er mikið. Nýja vindmyllan, sem kallast „The O-Wind Turbine“ fékk nýlega bresku James Dyson nýsköpunarverðlaunin og í nóvember mun koma í ljós hvernig hugmyndinni reiðir af þegar alþjóðlegu James Dyson verðlaunin verða afhent. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 5 ár muni líða þar til O-myllan verður komin á markað.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Skýrari hugsun í umhverfisvottuðum byggingum

109buildings-160Fólk sem starfar í umhverfisvottuðum byggingum virðist skýrara í kollinum en þeir sem vinna í sambærilegum byggingum sem ekki uppfylla skilyrði umhverfisvottunar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna í Harvard sem kynnt var á árlegri ráðstefnu Vistbyggðaráðs Bandaríkjanna sem haldin var í Los Angeles á dögunum. Rannsóknin náði til 109 einstaklinga í 10 byggingum í 5 borgum í Bandaríkjunum. Fólkið í umhverfisvottuðu byggingunum fékk að meðaltali 26% hærri einkunnir í prófum sem reyna á starfsemi hugans en þeir sem unnu í hinum byggingunum. Fólkið í fyrrnefnda hópnum reyndist hafa mun meiri hæfni til að bregðast við áreiti, hélt athyglinni betur, bjó við betri heilsu og svaf betur á næturnar, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfisvottun bygginga virðist sem sagt ekki bara koma umhverfinu að gagni, heldur stuðlar hún jafnframt að meiri framleiðni og betri líðan.
(Sjá frétt United Technologies 5. október).

Dönsk fyrirtæki fá aðstoð á grænu brautinni

Sett hefur verið upp nýtt vefsvæði, www.Green21.dk, sem ætlað er að aðstoða dönsk fyrirtæki við að styrkja samkeppnisfærni sína á grænum markaði. Á vefsvæðinu er m.a. að finna ráðleggingar um vistvæna hönnun og hvað þurfi til að fá umhverfismerki á framleiðsluna. Vefsvæðið er samstarfsverkefni Umhverfisráðuneytis Danmerkur, Álaborgarháskóla, Dansk Industri og Umhverfis- og þróunarsamtakanna Green Cross Denmark.
(Sjá frétt á heimasíðu danska umhverfisráðuneytisins 7. nóvember).