Skýrari hugsun í umhverfisvottuðum byggingum

109buildings-160Fólk sem starfar í umhverfisvottuðum byggingum virðist skýrara í kollinum en þeir sem vinna í sambærilegum byggingum sem ekki uppfylla skilyrði umhverfisvottunar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna í Harvard sem kynnt var á árlegri ráðstefnu Vistbyggðaráðs Bandaríkjanna sem haldin var í Los Angeles á dögunum. Rannsóknin náði til 109 einstaklinga í 10 byggingum í 5 borgum í Bandaríkjunum. Fólkið í umhverfisvottuðu byggingunum fékk að meðaltali 26% hærri einkunnir í prófum sem reyna á starfsemi hugans en þeir sem unnu í hinum byggingunum. Fólkið í fyrrnefnda hópnum reyndist hafa mun meiri hæfni til að bregðast við áreiti, hélt athyglinni betur, bjó við betri heilsu og svaf betur á næturnar, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfisvottun bygginga virðist sem sagt ekki bara koma umhverfinu að gagni, heldur stuðlar hún jafnframt að meiri framleiðni og betri líðan.
(Sjá frétt United Technologies 5. október).

Enn skýrari tengsl milli skordýraeiturs og skyndidauða býflugnabúa

BýflugudauðiNý rannsókn vísindamanna við Harvard Lýðheilsuháskólann styrkir fyrri vísbendingar um þátt neónikótínoíða í skyndidauða býflugnabúa (e. colony collapse disorder (CCD)). Á síðasta ári sýndi þessi sami hópur fram á fylgni milli notkunar skordýraeitursins imídaklópríð og skyndidauða býflugnabúa, en í ár var rannsóknin endurtekin með áherslu á klóþíanídín, en bæði efnin innihalda neónikótínoíð. Skyndidauði af völdum þessara efna virðist stafa af því að flugurnar yfirgefi hýði sitt á veturna og deyi úr kulda. Fyrri rannsóknir á tengslum skordýraeiturs og skyndidauða hafa bent til að há dánartíðni orsakist af minnkandi sýklamótstöðu, en í rannsókn Harvard kom fram að sýklamótstaða samanburðarhóps var sambærileg því sem gerðist í tilraunahópnum. Því þykir ljóst að neónikótínoíð hafi einnig önnur líffræðileg áhrif, ekki síst á taugakerfi flugnanna. Frá árinu 2006 hefur skyndidauði býflugnabúa orðið sífellt algengari. Býflugur gegna lykilhlutverki í vistkerfum jarðar og því afar brýnt að finna orsakir dauðans.
(Sjá frétt Science Daily 9. maí).

Nýr flæðisrafgeymir vekur vonir

HarvardVísindamenn við Harvardháskóla hafa þróað nýja gerð rafgeymis þar sem algengt og ódýrt lífrænt efni er notað í stað sjaldgæfra málma. Um er að ræða flæðisrafgeymi þar sem vökvi tekur í sig rafhleðslu í sérstökum rafbreyti (e. electrochemical conversion hardware) og er síðan geymdur hlaðinn í tanki. Þegar nota þarf orkuna flæðir vökvinn til baka í gegnum rafbreytinn yfir í annan tank þar sem hann bíður eftir nýrri hleðslu. Stærð tankanna er óháð stærð rafbreytisins, ólíkt því sem gerist í venjulegum rafhlöðum þar sem báðir hlutar eru sambyggðir. Lífræna efnið sem tekur við hleðslunni er kínón, en það er að finna í olíuafurðum og í fjölmörgum plöntum, m.a. í rabarbara. Þessi nýja tækni gæti boðað nýja tíma í nýtingu endurnýjanlegrar orku, svo sem vindorku og sólarorku, þar sem erfiðleikar við geymslu orkunnar hafa staðið í vegi fyrir því að hægt væri að jafna sveiflur í framboði og eftirspurn. Fræðilega væri hægt að nota tæknina hvort sem er í stórum stíl sem hluta af raforkukerfi á landsvísu eða í heimilisstærð.
(Sjá frétt á heimasíðu Harvardháskóla 8. janúar).