Fólk sem starfar í umhverfisvottuðum byggingum virðist skýrara í kollinum en þeir sem vinna í sambærilegum byggingum sem ekki uppfylla skilyrði umhverfisvottunar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna í Harvard sem kynnt var á árlegri ráðstefnu Vistbyggðaráðs Bandaríkjanna sem haldin var í Los Angeles á dögunum. Rannsóknin náði til 109 einstaklinga í 10 byggingum í 5 borgum í Bandaríkjunum. Fólkið í umhverfisvottuðu byggingunum fékk að meðaltali 26% hærri einkunnir í prófum sem reyna á starfsemi hugans en þeir sem unnu í hinum byggingunum. Fólkið í fyrrnefnda hópnum reyndist hafa mun meiri hæfni til að bregðast við áreiti, hélt athyglinni betur, bjó við betri heilsu og svaf betur á næturnar, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfisvottun bygginga virðist sem sagt ekki bara koma umhverfinu að gagni, heldur stuðlar hún jafnframt að meiri framleiðni og betri líðan.
(Sjá frétt United Technologies 5. október).