Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann

Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).

Sjálfkeyrandi sendibíll dreifir vörum í verslanir

Verslunarkeðjan Lidl í Svíþjóð stefnir að því að taka rafknúinn sjálfkeyrandi sendibíl í notkun í Halmstad næsta haust. Um er að ræða tilraunaverkefni og er ætlunin að bíllinn (sem kallast T-pod) flytji vörur um 4 km leið frá vöruhúsi Lidl út í verslanir bæjarins. Samið hefur verið við fyrirtækið Einride um hina tæknilegu hlið verkefnisins. Bíllinn mun einkum verða á ferðinni á næturnar, en leið hans liggur m.a. um tvö hringtorg, tvennar krossgötur og eina hægri beygju. Starfsmenn vöruhússins fylla á bílinn í lok dags og síðan tæma starfsmenn verslunar bílinn morguninn eftir. Bíllinn verður búinn kæli- og frystitækjum og tekur u.þ.b. 15 vörubretti í hverri ferð. Fyrst um sinn verður aðeins farin ein ferð á sólarhring. Sótt verður um rekstrarleyfi til Samgöngustofu Svíþjóðar (Transportstyrelsen) í nóvember 2017.
(Sjá frétt TransportNytt 25. október).

Rafbílar mun loftslagvænni en dísilbílar

Rafbílar losa mun minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en bensín- og dísilbílar þegar búið er að taka með í reikninginn alla losun sem verður við framleiðslu bílanna. Í Póllandi, þar sem stór hluti rafmagns er framleiddur með kolum, er munurinn 25% rafbílunum í hag, en 50% að meðaltali í Evrópu. Í Svíþjóð er munurinn um 85%, en þar er raforkuframleiðslan að miklu leyti óháð jarðefnaeldsneyti. Þetta kemur fram í nýrri lífsferilsgreiningu (LCA) sem vísindamenn við Vrije-háskólann í Belgíu unnu fyrir hugveituna Transport & Environment.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Vinnubílaáskorunin hafin!

Í síðustu viku var svonefndri „vinnubílaáskorun“ hleypt af stokkunum í Vänersborg í Svíþjóð. Fyrirtæki, sveitarfélög og samtök sem taka áskoruninni skuldbinda sig til að hafa eingöngu rafbíla, tengiltvinnbíla eða metanbíla til ráðstöfunar fyrir starfsmenn sína og huga jafnframt að því að nýta aðrar samgönguleiðir, svo sem reiðhjól, almenningssamgöngur eða deilibíla. Áskorunin er hluti af átakinu Fossilfritt Sverige, sem hófst í aðdraganda Parísarráðstefnunnar 2015. Fyrirtæki og stofnanir kaupa um helming allra nýrra bíla sem seldir eru í Svíþjóð og því skiptir miklu máli hvers konar bílar verða fyrir valinu. Ástæða þess að áskorunin var kynnt í Vänersborg er sú að sveitarfélögin á því svæði, beggja vegna sænsku/norsku landamæranna, hafa sett sér það takmark að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030. Yfirskrift þess verkefnis er Hela Gröna Vägen eða „Alla græna leið“.
(Sjá frétt Gröna bilister 5. október).

Rafknúið rúgbrauð á markað 2022

Bílaframleiðandinn Volkswagen tilkynnti sl. laugardag að rafknúið „rúgbrauð“ verði sett á markað árið 2022, en margir hafa saknað þessa VW-sendiferðabíls sem oft er tengdur 68-kynslóðinni í hugum fólks. Hugmyndabíll af þessu tagi var sýndur á bílasýningunni í Detroit fyrr á þessu ári, en ákvörðun um framleiðslu lá ekki fyrir fyrr en á laugardaginn. Ákvörðunin var kynnt á samkomu í Monterey í Kaliforníu, en þar stóð vagga rúgbrauðsins og hippamenningarinnar að margra mati. Ekki liggja fyrir nákvæmar tækniupplýsingar um nýja rúgbrauðið, en hugmyndabíllinn sem kynntur var í Detroit var með 111 kwst rafhlöðu sem á að duga fyrir rúmlega 400 km akstur.
(Sjá frétt Business Insider í gær).

Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga

md-byggplass-160x78Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).

Fjárfestar þrýsta á bílaframleiðendur að gera betur í loftslagsmálum

4096-160Hópur 250 alþjóðlegra fjárfesta, sem samtals ræður yfir hlutabréfum að andvirði meira en 24.000 milljarðar dollara (um 3 milljónir milljarða ísl. kr.) hefur skorað á bílaframleiðendur að flýta aðlögun sinni að kolefnisgrönnum heimi. Kröfur stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fari vaxandi og hefðbundin bílaframleiðsla muni þurfa að takast á við miklar áskoranir vegna breyttrar eftirspurnar og samkeppni frá aðilum á borð við Tesla og Google sem hafi tekið forystu í þróun og framleiðslu rafbíla og sjálfkeyrandi bíla. Brýn þörf sé á að móta stefnu fyrirtækjanna til langs tíma til að þau verði áfram álitlegur fjárfestingarkostur.
(Sjá frétt The Guardian 12. október).

Hleðslustöðvar við allar nýjar íbúðir eftir 2019?

miev-160Gerð verður krafa um að settar verði upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla við allar nýjar og endurgerðar íbúðarbyggingar í löndum Evrópusambandsins frá og með árinu 2019 ef fyrirliggjandi frumvarp að tilskipun verður samþykkt. Tilgangurinn með þessu er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð, minnka loftmengun og ná loftslagsmarkmiðum.
(Sjá frétt ENN 11. október).

Áframhaldandi samdráttur í koltvísýringslosun nýrra bíla

image_xlargeEvrópskir fólksbílar verða sífellt sparneytnari að því er fram kemur í tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Fólksbílar sem skráðir voru á árinu 2015 í löndum ESB losuðu að meðaltali 119,6 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, sem er 3% minna en árið áður og vel undir markmiði ESB fyrir árið 2015 þar sem gert var ráð fyrir meðallosun upp á 130 g/km. ESB er nú tveimur árum á undan áætlun í þessum efnum, en næsta markmið er að meðallosun fari undir 95 g/km árið 2021. Við þetta má þó bæta að sala nýrra bíla jókst um 9% milli ára. Aðeins um 1,3% nýrra bíla voru tvinn- eða rafbílar en í einstökum löndum var hlutfallið mun hærra, t.d. 12% í Hollandi. Þrátt fyrir litla markaðshlutdeild fjölgaði nýjum rafbílum um 50% milli áranna 2014 og 2015.
(Sjá frétt Umhverfisstofnun Evrópu 14. apríl).

Rafbílar ódýrari en hefðbundnir bílar árið 2022

EVsRafbílar verða orðnir ódýrari en hefðbundnir bílar árið 2022 samkvæmt nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance (BNEF) á rafbílamarkaðnum. Stærsti einstaki liðurinn í að lækka verð á rafbílum er þróun ódýrarri rafhlaðna, en verð á litíum rafhlöðum hefur lækkað um 65% frá árinu 2010. Þrátt fyrir að eldsneytisnotkun bílaflotans minnki um 3,5% á ári munu ódýrari rafhlöður lækka kaupverð það mikið að bætt olíunýting hefðbundinna bíla mun ekki vega það upp. Rafbílavæðing er mikilvægur þáttur í að draga úr loftslagsbreytingum og bæta loftgæði, en þrátt fyrir ríkisstyrki er aðeins um 1% af seldum bílum í dag rafbílar. Samkvæmt greiningunni mun hlutfall nýrra rafbíla ekki ná yfir 5% fyrr en árið 2022 þegar þeir verða orðnir ódýrari kostur, en eftir það er líklegt að hlutfallið hækki mjög hratt. Samkvæmt greiningunni munu rafbílar verða 35% af seldum bílum árið 2040 og bílaflotinn þá orðinn 25% rafvæddur. Þessi þróun ráðist þó mjög af þróun á olíuverði.
(Sjá frétt the Guardian 25. febrúar).