Viðgerðir og endurnotkun í brennidepli

73860Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur að nýrri áætlun sem ætlað er stuðla að því að hlutir, allt frá raftækjum til bygginga, séu lagfærðir eða endurunnir í stað þess að fleygja þeim og taka nýja í notkun í þeirra stað. Þessu á m.a. að ná fram með því að skylda framleiðendur til að gefa ráð um viðgerðir og niðurrif í notkunarleiðbeiningum í stað þess að tilgreina einungis hvernig staðið skuli að förgun. Sjónum verður sérstaklega beint að nýtingu á plasti, en um helmingur alls þess plasts sem tekið er í notkun endar í urðun eða á hafi úti með tilheyrandi hættu fyrir dýralíf. Vonast er til að þetta ýti undir vöxt hringrásarhagkerfisins á kostnað einnotahagkerfisins sem víða er við lýði. Gert er ráð fyrir að umrædd áætlun líti formlega dagsins ljós í næsta mánuði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Ný vöruhús Bacardi byggð úr byggingarúrgangi

bacardiByggingarúrgangur var notaður sem efniviður í þrjú ný vöruhús rommrisans Bacardi í Púertó Ríkó. Við niðurrif gamalla bygginga á athafnasvæðinu féllu til þúsundir tonna af óvirkum úrgangi á borð við steypu, jarðveg og stál, sem notað var í nýbyggingarnar. Með þessu móti sparaði Bacardi háar upphæðir, auk þess sem aðgerðin féll vel að úrgangsleysisstefnu fyrirtækisins (e. zero waste). Sjálfbærniverkefni Bacardi undir yfirskriftinni Good Spirited hefur það að markmiði að byggingarúrgangur verði úr sögunni árið 2022. Fyrirtækið hefur einnig sett sér það markmið að draga úr vatnsnotkun um 55% og minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fram til ársins 2017.
(Sjá frétt EDIE í dag).