Líftími raftækja styttist með hverju ári

tvLíftími raftækja styttist með hverju árinu sem líður samkvæmt nýrri rannsókn frá Umhverfisstofnun Þýskalands. Bilanatíðni hefur aukist á sama tíma og tískustraumar og nýjar útgáfur stýra markaðnum og raftækjum er í auknum mæli skipt út þó að þau séu nýleg og vel nothæf. Þetta hefur í för með sér aukið álag á auðlindir heimsins og eykur umhverfisáhrif raftækjanna. Hlutfall stórra raftækja sem bila fyrstu 5 árin hækkaði úr 3,5% í 8,3% á árunum 2004-2013. Þrátt fyrir þetta eru neytendur ánægðir með endingu raftækja. Forstjóri Umhverfisstofnunar Þýskalands kallar eftir lögbundnum lágmarkskröfum um líftíma raftækja, merkingum sem sýna líftíma vörunnar og að lögð sé áhersla á að auðvelt sé að gera við vöruna og skipta út hlutum.
(Sjá frétt EurActiv 16. febrúar).

Viðgerðir og endurnotkun í brennidepli

73860Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur að nýrri áætlun sem ætlað er stuðla að því að hlutir, allt frá raftækjum til bygginga, séu lagfærðir eða endurunnir í stað þess að fleygja þeim og taka nýja í notkun í þeirra stað. Þessu á m.a. að ná fram með því að skylda framleiðendur til að gefa ráð um viðgerðir og niðurrif í notkunarleiðbeiningum í stað þess að tilgreina einungis hvernig staðið skuli að förgun. Sjónum verður sérstaklega beint að nýtingu á plasti, en um helmingur alls þess plasts sem tekið er í notkun endar í urðun eða á hafi úti með tilheyrandi hættu fyrir dýralíf. Vonast er til að þetta ýti undir vöxt hringrásarhagkerfisins á kostnað einnotahagkerfisins sem víða er við lýði. Gert er ráð fyrir að umrædd áætlun líti formlega dagsins ljós í næsta mánuði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Raftækjaúrgangur á villigötum

weee_160Raftækjaúrgangur fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala (um 2.500 milljarða ísl. kr.) er seldur árlega á svörtum markaði eða honum fargað á ólöglegan hátt samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Samkvæmt skýrslunni er þarna um að ræða 60-90% af öllum raftækjaúrgangi sem til fellur, en samtals verður um 41 milljón tonna af raftækjum að úrgangi á ári hverju. Raftækjaúrgangur er iðulega fluttur ólöglega til þróunarríkja þar sem verðmætir málmar og fleiri efni eru tínd úr og seld. Þetta er oftast gert við mjög slæm skilyrði þar sem starfsmenn eru í daglegri snertingu við skaðleg efni og þungmálma sem geta safnast upp í líkamanum. UNEP bendir einnig á að með þessu séu þjóðir að missa auðlindir úr landi þar sem úrgangsmeðhöndlun og flokkun úrgangs getur verið atvinnuskapandi í heimalandinu og skapað verðmæti með sölu endurvinnanlegra efna. Mikilvægt sé að taka á þessu vandamáli með auknu alþjóðlegu samstarfi og samræmi í löggjöf og eftirfylgni á heimsvísu og í hverju landi fyrir sig.
(Sjá frétt UNEP í dag).

2.500 milljörðum eytt í ónotað rafmagn

electronics_160Bandaríkjamenn eyða árlega um 19 milljörðum dala (um 2.500 milljörðum ísl .kr.) í rafmagn fyrir raftæki sem ekki eru í notkun, að því er fram kemur í nýrri úttekt Natural Resources Defense Council. Að meðaltali eru þetta um 165 dalir á hvert heimili (21 þús. ísl.kr.). Til að framleiða þetta rafmagn þarf um 50 stór raforkuver. Raforkan er notuð á meðan fólk heldur að slökkt sé á tækinu eða þegar tækið er stillt á „Standby“ eða „sleep-mode“. Einnig hefur færst í aukana að fólk hafi alltaf kveikt á tækjum á borð við fartölvur, sem nota þá rafmagn þó að þau séu ekki í notkun. Þrátt fyrir að orkunýtni raftækja hafi batnað mjög á síðustu árum hefur tækniþróun leitt til þess að mörg raftæki nota sífellt rafmagn. Þannig hafa margar þvottavélar, þurrkarar, ískápar og fleiri tæki rafskjá og rafrænan stjórnunarbúnað. Önnur tæki, svo sem sjónvörp, eru í stöðugu netsambandi sem eykur einnig orkunotkun. Neytendur geta dregið úr orkusóun með því að nota tímarofa, fjöltengi með rofa, snjalltengi („smart power strip“) eða með því að breyta stillingum tækja.
(Sjá frétt ENN 7. maí).

Líftími raftækja styttist

raftaeki_160Í rannsókn Umhverfisstofnunar Þýskalands á „skipulegri úreldingu“ (e. built-in obsolescence) kom í ljós að sífellt fleiri raftæki eru seld til að koma í stað gallaðrar vöru. Árið 2004 var aðeins um 3,5% seldra raftækja í Evrópu ætlað að koma í stað gallaðra vöru en árið 2012 var hlutfallið komið í 8,3%. Á sama tíma hefur hlutfall stórra heimilistækja sem bila á fyrstu fimm árunum hækkað úr 7% árið 2004 í 13% árið 2013. Þessar tölur benda til að gæði og endingartími raftækja séu á niðurleið og að hugsanlega leggi raftækjaframleiðendur áherslu á stuttan líftíma til þess að auka sölu. Styttingu á líftíma má einnig rekja til neysluvenju þar sem neytendur leggja sífellt meiri áherslu á að eiga nýjasta módelið. Þannig voru um 60% allra sjónvarpstækja sem skipt var út árið 2012 í góðu lagi. Stjórnvöld innan ESB hafa áhyggjur af óábyrgri auðlindanotkun og áhrifum hennar á umhverfið og eru að skoða möguleika á að skylda framleiðendur til að tryggja endingu og að hægt sé að gera við raftækin.
(Sjá frétt the Guardian 3. mars).

Jákvæð þróun í raftækjaframleiðslu

ewaste_160Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).