Umhverfisvænsta bygging heims formlega opnuð í gær

Co-ophúsið í ManchesterNýtt 14 hæða hús sem hýsir höfuðstöðvar Co-op í Manchester hefur verið útnefnt umhverfisvænsta hús í heimi, en það náði hæsta skori vottunarkerfisins BREEAM til þessa, 95,16%. Þessi einstaki árangur byggir á mörgum þáttum. Þar má nefna að orka fyrir húsið er framleidd úr uppskeru af ökrum Co-op, hitastig jarðvegsins undir húsinu er nýtt til að jafna árstíðabundna hitasveiflu innandyra, og tvöfalt ytrabyrði hússins virkar sem sæng á vetrum en loftræsting á sumrum. Elísabet Englandsdrottning opnaði húsið formlega í gær, fimmtudaginn 14. nóvember.
(Sjá frétt EDIE í gær).

Vaxandi notkun hættulegra efna í byggingariðnaði

ByggebransjenUmhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) hefur áhyggjur af vaxandi notkun hættulegra efna í byggingariðnaði þar í landi. Á síðustu tveimur árum hefur notkun slíkra efna aukist, án þess að hægt sé að skýra það með vaxandi umsvifum í greininni. Um er að ræða ýmis efni sem leynast í einangrun, lími, fúgusementi og málningu, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu stofnunarinnar 7. nóvember).

Fyrsta Svansmerkta viðbyggingin

Viðbygging SvanurinnÞrjátíu íbúða viðbygging við hálfrar aldar gamalt tveggja hæða hús í Sandviken í Svíþjóð verður fyrsta Svansmerkta viðbyggingin á Norðurlöndunum. Fyrstu viðmiðunarreglur Svansins fyrir byggingar tóku gildi 2005, en á síðasta ári var gildissviðið útvíkkað þannig að reglurnar næðu líka til viðbygginga. Svansmerkt viðbygging ætti í flestum tilvikum að vera ódýrari í rekstri en aðrar slíkar byggingar, þar sem Svanurinn gerir miklar kröfur um orkunýtingu, auk krafna um val á byggingarefnum o.m.fl. Í húsinu í Sandviken er t.d. notaður varmaskiptir til að nýta hitann í frárennslisvatninu. Húsið sem byggt er við þarf ekki að standast kröfur Svansins, en hins vegar gilda kröfurnar um öll sameiginleg rými. Íbúarnir í eldri hlutanum njóta því einnig góðs af.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð í gær).