Nýstárleg aðgerðaáætlun um orkusparnað í Empire State byggingunni sparaði húseigendum um 3 milljónir bandaríkjadala (um 350 millj. ísl. kr.) á árinu 2013. Frá árinu 2009 hefur verið unnið að endurbótaverkefni til að draga úr orkunotkun byggingarinnar. Á þeim tíma hefur m.a. verið skipt um 6.514 glugga, einangrun komið fyrir bak við ofna og nýtt stýrikerfi tekið í notkun fyrir bygginguna. Þegar öllum endurbótum er lokið er gert ráð fyrir að árlegur orkukostnaður hafi lækkað um 4,4 milljónir bandaríkjadala (um 515 millj. ísl. kr.) sem jafngildir allt að 38% samdrætti í orkunotkun. Þar sem byggingar í Bandaríkjunum nota um 42% allrar orku sem neytt er þarlendis felur þetta tiltekna verkefni í sér mikilvægt dæmi um þann árangur sem hægt er að ná, bæði í fjárhagslegu og umhverfislegu tilliti, ekki síst þegar haft er í huga að þarna á í hlut 103 hæða skýjakljúfur, sem jafnframt er frægasta skrifstofubygging í heimi.
(Sjá frétt EDIE í dag).