Helmingur af öllu gulli í farsímum fer forgörðum

simiUm 50% af öllu því gulli sem til staðar er í farsímum fer forgörðum eftir að hætt er að nota símana. Brýnt er að lengja endingartíma síma og bæta söfnun þeirra að notkun lokinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kortlagningu á verðmætum málmum í farsímum, sem sagt er frá í októberhefti tímaritsins Resources, Conservation and Recycling. Í gulli liggja 80% af þeim verðmætum sem finna má í málminnihaldi farsíma, en þar er einnig nokkuð af öðrum dýrmætum málmum, svo sem kopar, silfri og palladíum. Ef núverandi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að árið 2050 verði endurnýtingarhlutfall gulls úr farsímum komið niður í 20%. Þessi þróun stangast á við áætlanir ríkja Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og mun leiða til mun hraðari eyðingar auðlinda en þörf er á, þ.e. ef ekki verður gripið til aðgerða til að draga úr sóuninni.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy, 16. september).

Geta mjölormar losað okkur við frauðplast?

Ormar ENN (160x107)Í ljós hefur komið að mjölormar geta étið frauðplast eins og það sem notað er í einnota drykkjarmál. Frauðplastið er gert úr pólýstýreni, sem hingað til hefur verið mjög erfitt í endurvinnslu. Bandarískir neytendur henda árlega um 25 milljörðum frauðplastmála og þar í landi lenda samtals um 2 milljónir tonna af efninu í urðun á hverju ári. Svo virðist sem mjölormar geti étið pólýstýren án þess að verða fyrir heilsutjóni, en talin er þörf á að rannsaka það atriði nánar, svo og hvort ormar sem aldir hafa verið á pólýstýreni séu jafngott fóður og aðrir ormar. Gríðarlegan fjölda orma þyrfti til að brjóta niður pólýstýren í stórum stíl en vísindamenn binda vonir við að hægt verði að einangra og rækta bakteríur sem væntanlega gera ormunum kleift að melta plastið.
(Sjá frétt ENN 2. október).

Plastagnir endurnýttar í steypu

27225Hafin er tilraunaframleiðsla á steypu þar sem endurunnar plastagnir eru notaðar í staðinn fyrir 10% af þeim sandi sem hingað til hefur verið notaður í steypuna. Háskólinn í Bath í Englandi stýrir verkefninu í samvinnu við indverska vísindamenn með fjármagni frá Bretland-Indland menntunar- og rannsóknarverkefninu (UKIERI). Afurð verkefnisins verður steypublanda með svipaða eiginleika og hefðbundin steypa hvað varðar styrk, endingu og hitaþol. Verkefnið mun draga úr tveimur umhverfisvandamálum á Indlandi. Annars vegar stuðlar það að minna sandnámi úr árbökkum og þar með minni landeyðingu og hins vegar dregur það úr magni plasts sem fer til urðunar. Indland er annar stærsti steypuframleiðandi heims með um 270 milljón tonna árlega framleiðslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Amazing-Spiderman 2 sjálfbærasta stórmyndin

26096Amazing-Spiderman 2 er að sögn Sony Pictures umhverfisvænsta stórmynd sem fyrirtækið hefur framleitt. Notuð voru um 49 tonn af notuðu hráefni við gerð leikmyndar, gervisnjórinn var lífbrjótanlegur og reykurinn í myndinni var byggður á vatni í stað olíu. Einnig voru búningar endurnýttir eða gefnir til góðgerðarsamtaka að tökum loknum og matur sem varð afgangs rann til góðgerðarsamtaka á svæðinu. Plastflöskur voru bannaðar á tökustað, en þessar flöskur hefðu annars verið um 193 þúsund talsins að mati Sony. Að sögn Emelie O’brien, umhverfisstjóra myndarinnar, er sjálfbærni mikilvægur þáttur í framleiðslu kvikmynda, enda sé kvikmyndaiðnaðurinn ein áhrifamesta atvinnugrein samtímans.
(Sjá frétt EDIE 28. mars).

Nýr prentari sem endurnýtir pappírinn

306LP_artikelToshiba hefur sett á markað nýjan Svansmerktan prentara sem getur prentað aftur og aftur á sama pappírinn. Útprentuð blöð sem lokið hafa hlutverki sínu eru þá sett í sérstaka skúffu í prentaranum í stað þess að fleygja þeim. Þar er letrið fjarlægt með því að hita blöðin, auk þess sem sléttað er úr blöðunum áður en prentað er á þau á nýjan leik. Galdurinn á bak við þetta liggur í tónernum sem notaður er í prentarann. Með þessari nýju tækni er hægt að draga verulega úr pappírsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 22. janúar).

Jólafrí

Jolamynd13Vefsíðan 2020.is er komin í langt jólafrí og verður næst uppfærð þriðjudaginn 7. janúar 2014. Síðan þakkar fyrir samfylgdina á árinu, óskar lesendum sínum gleðilegrar og efnislítillar jólahátíðar, minnir þá á að geyma nýtilegan jólapappír til næstu jóla, og vonar að næsta ár verði þeim öllum farsælt og friðsamt.

Verslunarkeðja með eigið orkuver

Breska verslunarkeðjan Waitrose áformar að taka þriðja orkuver keðjunnar í notkun á næsta ári. Þetta orkuver verður ólíkt þeim tveimur fyrri að því leyti að hráefni verður eingöngu sótt í eigin úrgang keðjunnar, svo sem vörubretti og steikingarfeiti. Einnig verður notað timbur sem til fellur við niðurrif ónýtra rúma sem vipskiptavinir skila inn til verslananna. Bómull og önnur verðmæt efni úr rúmunum eru hins vegar nýtt í nýja framleiðslu. Hið nýja orkuver er liður í að gera verslunarkeðjuna sjálfa sér nóga með orku og ná markmiði um 15% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2021.
(Sjá nánar í frétt EDIE í gær).