Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).
Greinasafn fyrir merki: neónikótínoíð
Verða býflugur nikótínfíklar?
Hópur breskra vísindamanna hefur sýnt fram á að býflugur sem geta valið á milli hreinnar fæðu og fæðu sem er menguð af skordýraeitrinu neónikótínoíð virðast forðast eitrið í fyrstu en fara svo smám saman að taka eitraða fóðrið framyfir hitt. Þetta bendir til að flugurnar þrói með sér einhvers konar fíkn, sambærilega fíkn reykingamanna í nikótín í tóbaki, enda um skyld efni að ræða. Þetta gæti verið vísbending um að skordýraeitrið sé enn skaðlegra býflugum en áður var talið.
(Sjá frétt Guardian í gær).
Býflugum fækkar vegna sveppaeiturs
Sveppaeitur sem dreift er á ræktað land virðist eiga stóran þátt í þeirri fækkun býflugna sem mikið hefur verið í umræðunni á síðustu misserum. Þetta kom í ljós í nýrri greiningu sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B. Niðurstöðurnar voru fengar með tölfræðilegri greiningu á niðurstöðum rannsókna frá 284 stöðum í Bandaríkjunum og samtals voru skoðuð áhrif 24 mismunandi þátta á afkomumöguleika fjögurra býflugnategunda. Meðal þessara þátta voru hnattstaða, hæð yfir sjó, gerð og ástand búsvæða, þéttleiki byggðar og notkun varnarefna. Það kom nokkuð á óvart að sveppaeitrið klóróþalóníl reyndist stærsti áhrifavaldurinn. Talið er líklegt að þetta stafi af því að eitrið drepi örverur í meltingarvegi býflugnanna og auki þannig líkur á þarmaveiki af völdum Nosema-sníkilsins. Áður var vitað að notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð hefur skaðað býflugnastofna. Býflugur og aðrir frjóberar sjá um að frjóvga um 75% allra matjurta í heiminum og því er fækkun þeirra mikið áhyggjuefni.
(Sjá frétt The Guardian 29. desember).
Enn skýrari tengsl milli skordýraeiturs og skyndidauða býflugnabúa
Ný rannsókn vísindamanna við Harvard Lýðheilsuháskólann styrkir fyrri vísbendingar um þátt neónikótínoíða í skyndidauða býflugnabúa (e. colony collapse disorder (CCD)). Á síðasta ári sýndi þessi sami hópur fram á fylgni milli notkunar skordýraeitursins imídaklópríð og skyndidauða býflugnabúa, en í ár var rannsóknin endurtekin með áherslu á klóþíanídín, en bæði efnin innihalda neónikótínoíð. Skyndidauði af völdum þessara efna virðist stafa af því að flugurnar yfirgefi hýði sitt á veturna og deyi úr kulda. Fyrri rannsóknir á tengslum skordýraeiturs og skyndidauða hafa bent til að há dánartíðni orsakist af minnkandi sýklamótstöðu, en í rannsókn Harvard kom fram að sýklamótstaða samanburðarhóps var sambærileg því sem gerðist í tilraunahópnum. Því þykir ljóst að neónikótínoíð hafi einnig önnur líffræðileg áhrif, ekki síst á taugakerfi flugnanna. Frá árinu 2006 hefur skyndidauði býflugnabúa orðið sífellt algengari. Býflugur gegna lykilhlutverki í vistkerfum jarðar og því afar brýnt að finna orsakir dauðans.
(Sjá frétt Science Daily 9. maí).