Baktería sem brýtur niður PFAS

Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).

PCB mengun kemur háhyrningsstofni Breta fyrir kattarnef

hvalurAðeins 8 dýr eru eftir í síðustu háhyrningahjörð Breta og er aðeins tímaspursmál hvenær hjörðin líður undir lok, enda hafa engin afkvæmi fæðst undanfarin 19 ár. Ástæðan er talin vera langvarandi PCB-mengun í höfum Vestur-Evrópu, en þrátt fyrir bann við efninu á áttunda áratugnum hefur það fundist í um 1.000 lífsýnum úr höfrungum við Bretlandseyjar á síðustu 20 árum. Magn efnisins í sýnunum er langt yfir viðmiðunarmörkum, en efnið skaðar m.a. ónæmiskerfi og frjósemi dýra. Þar sem PCB er þrávirkt efni og sjávarspendýr oft langlíf getur ótrúlegt magn safnast upp í dýrum sem eru efst í fæðukeðjunni. Þrátt fyrir að PCB hafi lengi verið á bannlista er styrkur efnisins í sjónum vestur af meginlandi Evrópu sá hæsti sem þekkist. Efnið brotnar mjög hægt niður og því er erfitt að losna við það. Auk þess mun eitthvað af efninu leka frá urðunarstöðum.
(Sjá frétt the Guardian 14. janúar).

Brjóstapúðar safna eiturefnum

BrjostapudiNotaðir brjóstapúðar geta nýst til mælinga á þrávirkum efnum í líkömum kvenna. Sílikonið í púðunum dregur í sig og varðveitir ýmis eiturefni, þannig að þegar púðarnir eru fjarlægðir veita þeir mikilvægar upplýsingar til viðbótar þeim sem fást við efnagreiningar á blóðsýnum og sýnum úr brjóstamjólk. Norskir vísindamenn komust að þessu eftir að hafa fengið leyfi til að efnagreina púða sem fjarlægðir höfðu verið úr 22 konum á læknastofu í Osló. Í raun fara mikilvægar upplýsingar til spillis þegar notuðum brjóstapúðum er hent „ólesnum“.
(Sjá frétt á forskning.no í dag).