Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).