Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs

Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).

Japanir rækta grænmeti á meðan þeir bíða eftir lestinni

SoradofarmMatjurtagarðar hafa verið útbúnir á þökum fimm lestarstöðva í Tokyo. Þeir er hluti af svonefndu Soradofarm-verkefni Austur-Japanska járnbrautarfélagsins, en þar er íbúum gefinn kostur á að rækta sinn eigin þriggja fermetra garð á meðan þeir bíða eftir lestinni. Reiturinn og nauðsynlegustu garðverkfæri eru leigð út til áhugasamra fyrir um 100 þúsund jen á ári (um 110 þús. ísl. kr.). Íbúar Tokyo hafa flestir litla möguleika á að stunda garðrækt vegna plássleysis, auk þess sem mikill tími fer yfirleitt í samgöngur milli heimilis og vinnustaðar. Vonast er til að verkefnið auki vellíðan íbúa og dragi úr streitu með því að gefa fólki kost á aukinni útiveru og fersku lofti.
(Sjá frétt Treehuggers 26. mars).

Japanskt frauðplast á fjörum Alaska

FrauðplastGríðarlegt magn af japönsku frauðplasti hefur rekið á fjörur Alaska síðustu mánuði. Þetta er ein af afleiðingum jarðskjálftans mikla í Japan í mars 2011 og flóðbylgjunnar sem fylgdi í kjölfarið. Plastið er m.a. úr einangrun húsa sem skemmdust í hamförunum og úr flotholtum á sjó. Plastið hefur nú náð að berast þvert yfir Kyrrahafið og er víða að finna á vesturströnd Bandaríkjanna. Erfiðast verður þó að hreinsa strendur Alaska, þar sem svæðið er afskekkt og strandlínan löng. Umhverfisverndarsinnar hafa áhyggjur af áhrifum plastsins á dýralíf, en frauðplast brotnar seint eða aldrei niður í náttúrunni og getur m.a. valdið köfnun og stíflað meltingarvegi dýra.
(Sjá frétt PlanetArk 31. janúar).