Umhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru notaðir oftast, að því er fram kemur í nýrri úttekt Neytendafélags Stokkhólms (KfS). Þetta gildir um alla poka, hvort sem þeir eru gerðir úr plasti eða öðrum efnum. Bómullarpokar eru þannig ekki endilega bestir, enda er framleiðsla á bómull mjög frek á auðlindir. Slíkan poka þarf að nota mörghundruð sinnum til að hann komi betur út en lífplastpoki úr sykurreyr sem notaður er einu sinni. KfS mælir helst með pokum úr endurunnu pólýester, svo sem úr gosflöskum eða fatnaði. Slíkan poka þarf að nota 10-40 sinnum til að hann jafnist á við sykurreyrpokann. Þessir pokar eru efnislitlir og því auðvelt að brjóta þá saman og geyma í vasa eða veski. Þar með aukast líkurnar á að þeir séu notaðir aftur og aftur. Árlega nota Svíar um 1,3 milljarða burðarpoka úr plasti og um 60 milljónir poka úr öðrum efnum.
(Sjá fréttatilkynningu KfS 26. janúar).