Einn tauþvottur skilar allt að 700.000 plastögnum út í fráveituna

2365-160Föt úr gerviefnum geta gefið frá sér mikinn fjölda plastagna í hvert sinn sem þau eru þvegin. Þannig getur einn tauþvottur skilað allt að 700.000 smásæjum plastögnum út í umhverfið að því er fram kom í rannsókn vísindamanna við háskólann í Plymouth í Englandi. Föt úr akrýlefnum reyndust langverst hvað þetta varðar og skiluðu frá sér hátt í 730.000 ögnum í hverjum þvotti sem var um 1,5 sinnum meira en föt úr pólýester og 5 sinnum meira en föt úr blöndu af pólýester og bómull. Talsvert af þessum ögnum stöðvast í skólphreinsistöðvum og endar þar í seyru, en aðrar skolast út í ár og höf með fráveituvatninu. Margt bendir til að plastagnir geti haft víðtæk neikvæð áhrif á lífverur og þar með á fæðukeðju manna. Ekki er fullljóst hvaða þættir hafa mest áhrif á losun agna úr fatnaði við þvott, en magnið kann að ráðast af þvottatíma, hönnun á síum og vinduhraða.
(Sjá frétt The Guardian 27. september).

Risaframleiðandi gallaefnis veðjar á Svaninn

jeansTyrkneski denímframleiðandinn ISKO, sem framleiðir um 250 milljón metra af gallaefni á ári, hefur fengið Svansvottun fyrir 6 af gallaefnum fyrirtækisins. Fyrirtækið framleiðir m.a. gallabuxnaefni fyrir Diesel, Bik Bok og Replay og vegna þess hve umsvifin eru mikil hefur vottunin í för með sér verulegan umhverfislegan sparnað og stórt skref í átt að sjálfbærari tískuframleiðslu. Framleiðslukeðjur í tískugeiranum geta verið mjög flóknar og því er mikil vinna að fá vottun sem tekur tillit til alls lífsferils vörunnar. Til að fá slíka vottun þurfa fyrirtæki að huga að öllum framleiðsluferlinum, allt frá því að ræktun bómullarinnar hefst. Einnig þarf að skoða félagslega þætti svo sem öryggi og aðbúnað starfsmanna í framleiðslukeðjunni, notkun eiturefna við litun og lokameðferð vörunnar o.s.frv.
(Sjá frétt Miljømærkning Danmark 17. mars).

Bestu burðarpokarnir eru þeir sem maður notar oftast

b6b7f6dee9d3b68b_800x800arUmhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru notaðir oftast, að því er fram kemur í nýrri úttekt Neytendafélags Stokkhólms (KfS). Þetta gildir um alla poka, hvort sem þeir eru gerðir úr plasti eða öðrum efnum. Bómullarpokar eru þannig ekki endilega bestir, enda er framleiðsla á bómull mjög frek á auðlindir. Slíkan poka þarf að nota mörghundruð sinnum til að hann komi betur út en lífplastpoki úr sykurreyr sem notaður er einu sinni. KfS mælir helst með pokum úr endurunnu pólýester, svo sem úr gosflöskum eða fatnaði. Slíkan poka þarf að nota 10-40 sinnum til að hann jafnist á við sykurreyrpokann. Þessir pokar eru efnislitlir og því auðvelt að brjóta þá saman og geyma í vasa eða veski. Þar með aukast líkurnar á að þeir séu notaðir aftur og aftur. Árlega nota Svíar um 1,3 milljarða burðarpoka úr plasti og um 60 milljónir poka úr öðrum efnum.
(Sjá fréttatilkynningu KfS 26. janúar).

Öll bómull hjá IKEA orðin „sjálfbærari“

bomull (160x81)Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).

Endurvinnsluátak hjá H&M

73567Fatarisinn H&M, sem nú er orðin næststærsta fataverslunarkeðja í heimi, ætlar hér eftir að veita árleg verðlaun upp á milljón evrur (um 148 millj. ísl. kr.) fyrir nýja tækni til að endurvinna föt. Í næstu viku mun H&M jafnframt setja á markað nýja gallabuxnalínu með endurunninni bómull. Karl-Johan Persson, forstjóri H&M, sagði af þessu tilefni að ekkert fyrirtæki í fataiðnaði gæti haldið áfram á þeirri braut sem greinin væri nú á og að tilgangurinn með verðlaununum væri ekki síst að finna nýja tækni til að endurvinna textílþræði án þess að gæði þeirra minnkuðu. H&M og fleiri fataframleiðendur hafa vaxandi áhyggjur af yfirvofandi bómullarskorti samfara fjölgun mannkyns og útbreiddum einnotahugsunarhætti. Í þessu felst mikil áskorun fyrir H&M sem hefur lagt megináherslu á ódýr föt. Lágt verð felur í sér aukna hættu á að fötum sé fleygt fyrr en ella og ný keypt í staðinn.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Mikill umhverfislegur sparnaður hjá Adidas!

adidas_160Á dögunum birti Adidas sjálfbærniskýrslu sína fyrir árið 2014. Þar kemur fram að á síðustu 6 árum hefur fyrirtækið náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmyndun og vatnsnotkun um rúmlega 20%. Fyrirtækið hefur ráðist í ýmis verkefni til að minnka vistspor sitt. Sem dæmi má nefna að á næstu árum verður allri notkun plastpoka í verslunum fyrirtækisins hætt. Þá er fyrirtækið farið að nýta plastrusl úr hafinu sem hráefni í endurunnið plastefni sem nýtist m.a. við framleiðslu á skóm. Dregið hefur verið úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri orkunýtingu og kolefnisjöfnun en verðlag og aðgengi að endurnýjanlegri orku standa enn í vegi fyrir frekari úrbótum. Vatnssparnaðurinn byggist einkum á tveimur atriðum, annars vegar svonefndri DryDye tækni við litun bómullar og hins vegar aukinni áherslu á notkun lífrænnar bómullar, sem er nú um 30% af allri bómull sem fyrirtækið notar.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Öll bómull H&M af sjálfbærum uppruna 2020

26155Um 15,8% af þeirri bómull sem notaður er í fatnað H&M fatakeðjunnar er af sjálfbærum uppruna samkvæmt sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2013. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að árið 2020 verði öll bómull í fatnaði fyrirtækisins af sjálfbærum uppruna, þ.e.a.s. annað hvort lífrænt vottuð eða úr endurunnum trefjum. H&M leggur mikla áherslu á sjálfbæra þróun og leitast við að búa til lokaðar hringrásir, meðal annars með því að framleiða fatnað úr notuðum textílefnum sem tekið er við í verslunum fyrirtækisins. Á síðasta ári söfnuðust þannig um 3 þúsund tonn af notuðum efnum sem send voru í endurvinnslu. Bómull er mest notaða efnið í fatnaði H&M en bómullarframleiðsla er mjög vatnsfrek, auk þess sem um 10% af öllu skordýraeitri heimsins er notað í bómullarrækt.
Sjá frétt EDIE í dag).