Auglýsingaskilti í „endurnýjun lífdaga“

full_29379Auglýsingaskilti úr plasti sem sett voru upp við Þúsaldarvöllinn í Cardiff á meðan heimsmeistarakeppnin í ruðningi fór þar fram í haust, hafa nú gengið í „endurnýjun lífdaga“ fyrir tilstilli umbúðafyrirtækisins DS Smith. Sá hluti skiltanna sem framleiddur hafði verið úr pólýprópýlenplasti (PP) var malaður og breytt í hráefni fyrir nýjar PP-vörur. Með þessu móti var unnt að endurvinna 98% af heildarþyngd PP-skiltanna. Þegar til átti að taka kom hins vegar í ljós að stór hluti skiltanna var úr annars konar plasti sem ekki var hægt að endurvinna, svo sem úr PVC eða úr blöndu af fleiri fjölliðum. Þar sem skilti sem þessi eru efnismikil er ljóst að miklu skiptir úr hvers konar plasti þau eru gerð.
(Sjá frétt EDIE 24. nóvember).

Mikill umhverfislegur sparnaður hjá Adidas!

adidas_160Á dögunum birti Adidas sjálfbærniskýrslu sína fyrir árið 2014. Þar kemur fram að á síðustu 6 árum hefur fyrirtækið náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmyndun og vatnsnotkun um rúmlega 20%. Fyrirtækið hefur ráðist í ýmis verkefni til að minnka vistspor sitt. Sem dæmi má nefna að á næstu árum verður allri notkun plastpoka í verslunum fyrirtækisins hætt. Þá er fyrirtækið farið að nýta plastrusl úr hafinu sem hráefni í endurunnið plastefni sem nýtist m.a. við framleiðslu á skóm. Dregið hefur verið úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri orkunýtingu og kolefnisjöfnun en verðlag og aðgengi að endurnýjanlegri orku standa enn í vegi fyrir frekari úrbótum. Vatnssparnaðurinn byggist einkum á tveimur atriðum, annars vegar svonefndri DryDye tækni við litun bómullar og hins vegar aukinni áherslu á notkun lífrænnar bómullar, sem er nú um 30% af allri bómull sem fyrirtækið notar.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Adidashælar úr matarumbúðum

adidas skorHælstykki í Adidasskóm úr vor- og haustlínunni 2014 verða að hálfu úr endurunnum matarumbúðum úr plasti. Um er að ræða stykki sem sett er í sólann við hælinn til að veita stuðning og er venjulega úr hitadeigu gúmmíi og pólýstýren. Vegna hækkandi verðs þessara hráefna fór birginn Framas að leita að staðgengilsefnum og þá kom í ljós að mikill fjárhagslegur og umhverfislegur sparnaður felst í að nýta endurunnin pólýstýren efni. Framas framleiðir um 110 milljónir slíkra stykkja árlega og gerir ráð fyrir að með þessari nýju aðferð megi koma í veg fyrir urðun á um 1.500 tonnum af pólýstýreni á ári.
(Sjá frétt EDIE í gær).

Umhverfismál í ólestri í Sochi

sochiUmhverfisverndarsamtökin WWF gagnrýna skipuleggjendur vetrarólympíuleikanna í Sochi harðlega og hafa hætt samstarfi við þá vegna þess sem þeir kalla „innantóm orð“ um umhverfismál. Heimamenn í samtökunum Echo Waschta taka undir þessa gagnrýni og telja yfirlýsingar um græna og mengunarlausa leika lítils virði þegar við blasa ólöglegir ruslahaugar, byggingarúrgangur í nærliggjandi vatnsföllum og eyðilögð svæði innan þjóðgarðs. Verst mun ástandið vera í ánni Mzymta sem sér stórum hluta af Sochi fyrir drykkjarvatni. Sagt er að áin hafi verið algjörlega eyðilögð vegna framkvæmda við vegi og járnbrautir.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 8. janúar).

Ólögleg urðun við Sochi

Sochi urðunSvo virðist sem Rússar standi ekki við fyrirheit um að vetrarólympíuleikarnir í Sochi verði þeir grænustu í sögunni. Þar átti eingöngu að nota endurnýjanlegt efni og engum úrgangi átti að farga, hvorki byggingarúrgangi né öðru. AP-fréttastofan komst hins vegar að því á dögunum að mikið magn af blönduðum úrgangi hefur verið flutt á urðunarstað sem rússnesku járnbrautirnar reka við þorpið Akhshtyr, án starfsleyfis. Reyndar fylgir sögunni að starfsleyfi myndi ekki fást þótt sótt væri um það, þar sem urðunarstaðurinn sé á vatnsverndarsvæði. Haft er eftir talsmanni Greenpeace að þarna snúist „úrgangsforvarnir“ um að koma úrgangi úr augsýn.
(Sjá frétt NewsDaily í gær).

Keppt í sjálfbærni á EM í Gautaborg

Caro3Sjálfbærni verður ný keppnisgrein á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem haldið verður í Gautaborg 1.-3. mars nk. Þar er ætlunin að fá a.m.k. 6.000 manns, þ.e.a.s. jafnmarga sætunum í frjálsíþróttahöllinni, til að undirrita sérstakt loftslagsheit í 10 liðum. Sænsku náttúruverndarsamtökin(Naturskyddsföreningen) með þekktasta starfsmann sinn, Carólínu Klüft, í broddi fylkingar, hafa unnið að undirbúningi verkefnisins með Evrópska frjálsíþróttasambandinu. Sams konar keppni verður háð á fjórum öðrum Evrópumeistaramótum (félagsliða, ungmenna og í víðvangshlaupi) síðar á árinu, en öll þessi mót eru aðilar að samstarfi um umhverfismál undir yfirskriftinni „Green inspiration„.
(Sjá frétt á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Evrópu 22. febrúar).