Engum blöðrum sleppt á þjóðhátíð Gíbraltar

blodrurYfirvöld á Gíbraltar hafa ákveðið að hætta að sleppa blöðrum á þjóðhátíðardegi höfðans, en hefð hefur verið fyrir slíku síðastliðin 24 ár. Gíbraltar hefur árum saman státað af einni stærstu blöðruhátíð í heimi, þar sem árlega er sleppt þúsundum hvítra og rauðra blaðra á þjóðhátíðardeginum. Áhrif blaðranna á lífríki sjávar hafa valdið mörgum íbúum áhyggjum og hafa grasrótarhreyfingar beitt sér fyrir því að þessi siður verði aflagður. Með því að hætta blöðrusleppingum vilja yfirvöld draga úr plastmengun í hafinu og neikvæðum áhrifum hennar á lífríki sjávar, um leið og aðgerðin felur í sér áminningu til ríkja heims um mikilvægi verndunar.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).

Plasthreinsun við strendur dugar best

5200Leggja ætti áherslu á að hreinsa plastrusl úr sjónum við strendur nálægt þéttbýli í stað þess að reyna að veiða plastið upp úr plastflákunum á úthöfunum. Þetta er niðurstaða rannsókna á vegum Imperial College, en samkvæmt þeim væri hægt að minnka magn míkróplasts í hafinu um 31% með því að hreinsa strandsvæði. Árangurinn yrði hins vegar aðeins 17% ef hreinsunin beindist að plasteyjunni í Kyrrahafinu, sem nú er talin vera um tvöfalt stærri en Bretland. Mest af míkróplastinu sem mengar hafið berst af landi og því skilar hreinsun næst landi mestum árangri. Þá er um leið komið í veg fyrir að umrætt plast skaði lífríkið á leið sinni út á höfin, en lífríkið er einmitt mun fjölskrúðugra nær landi. Áætlað er að árlega berist um 5-13 milljónir tonna af plasti í hafið og að ef ekkert verði að gert verði þessi tala komin í 28 milljónir tonna árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Lífbrjótanlegt plast er ekki lausnin

viewimageAukin notkun á svonefndu lífbrjótanlegu (e. biodegradable) plasti mun ekki leiða til minni plastmengunar í hafinu að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Plast sem er framleitt þannig að það brotni hraðar niður í náttúrunni en venjulegt plast þarf oftar en ekki allt að 50°C í nokkurn tíma til að niðurbrotið hefjist og slíkar aðstæður eru ekki í sjónum. Auk þess er hætt við að fólk umgangist plastið af meira kæruleysi en ella ef það er merkt sem „lífbrjótanlegt“. Nú er talið að allt að 20 milljónir tonna af plasti endi í hafinu á ári hverju.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP í dag).

Fljótandi plastrusl við Norðurheimskautið

151022111337_1_540x360 (160x107)Plastrusl flýtur á sjónum við Norðurheimskautið að því er fram kom í rannsókn sem sagt er frá í vefútgáfu vísindaritsins Polar Biology, en plastrusl hefur ekki áður fundist á yfirborði sjávar svo norðarlega. Í rannsókninni var þyrlu flogið yfir Framsund milli Grænlands og Svalbarða (á svæði u.þ.b. 1.500 km norðaustur af Melrakkasléttu) auk þess sem sama svæði var skoðað úr skipsbrú. Þarna fannst reyndar „aðeins“ 31 hlutur úr plasti á 5.600 km langri leið, en þar sem allar athuganir voru gerðar úr 18 m hæð yfir sjávarborði náði talning einungis til stórra plaststykkja. Ekki er vitað hvernig plastið barst þarna norðureftir, en það kann að hafa losnað úr sjötta plastfláka úthafanna sem líklega er að myndast í Barentshafi. Aukin skipaumferð kann einnig að hafa sitt að segja í þessu sambandi. Þéttleiki plasts á hafsbotni á sama svæði er talinn vera 10-100 sinnum meiri en á yfirborðinu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).

Um 8 milljón tonn af plasti í hafið árlega

marinedebris_160Um 8 milljón tonn af plastúrgangi enda í hafinu á ári hverju samkvæmt nýrri rannsókn National Centre of Ecological Analysis and Synthesis (NCEAS), en hingað til hefum mönnum gengið illa að áætla hversu mikið magn væri þarna um að ræða. Í rannsókninni voru skoðaðar úrgangstölur frá 192 löndum og reiknað út frá þeim að 4,8-12,7 milljónir tonna af plasti hefðu borist á haf út árið 2010. Miðgildið var 8 milljón tonn. Plastrusl er orðið stórt vandamál fyrir vistkerfi sjávar, þar sem það getur kæft eða kyrkt sjávardýr, auk þess sem plastið getur ferjað eiturefni inn í fæðukeðjuna. Plastið í sjónum á m.a. uppruna sinn að rekja til illa rekinna opinna urðunarstaða og rangrar meðhöndlunar almennings á plastúrgangi. Aukin áhersla á úrgangsforvarnir og betri úrgangsstjórnun eru því lykilatriði í viðleitninni til að draga úr þessum vanda.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Fimm billjónir plaststykkja fljóta um heimshöfi

plast_i_hadiÁætlað er að um heimshöfin fljóti nú 5,25 billjónir plaststykkja (5.250.000.000.000 stykki), sem samtals vega um 269 þúsund tonn. Þessi áætlun byggir á niðurstöðum úr 24 rannsóknarleiðöngrum vísindamanna frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Síle, Ástralíu og Nýja-Sjálandi sem farnir voru á árunum 2007-2013. Mest af þessu plasti er míkróplast, þ.e. plastagnir sem eru minni en 5 mm í þvermál. Plastmengun getur haft mikil áhrif á lífríki sjávar. Þannig geta stærstu einingarnar kæft eða kyrkt sjávarspendýr og plastagnir geta ferjað eiturefni inn í fæðukeðjuna. Í stóru plastflákunum fimm í N-Kyrrahafi, S-Kyrrahafi, N-Atlantshafi, S-Atlantshafi og á Indlandshafi kom meira af plastögnum en lífverum í net vísindamannanna. Taldar eru litlar líkur á að draga muni úr plastmengun í heimshöfunum á næstu árum, enda fer nú aðeins um 5% af því plasti sem til fellur í endurvinnslu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).