Á dögunum birti Adidas sjálfbærniskýrslu sína fyrir árið 2014. Þar kemur fram að á síðustu 6 árum hefur fyrirtækið náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmyndun og vatnsnotkun um rúmlega 20%. Fyrirtækið hefur ráðist í ýmis verkefni til að minnka vistspor sitt. Sem dæmi má nefna að á næstu árum verður allri notkun plastpoka í verslunum fyrirtækisins hætt. Þá er fyrirtækið farið að nýta plastrusl úr hafinu sem hráefni í endurunnið plastefni sem nýtist m.a. við framleiðslu á skóm. Dregið hefur verið úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri orkunýtingu og kolefnisjöfnun en verðlag og aðgengi að endurnýjanlegri orku standa enn í vegi fyrir frekari úrbótum. Vatnssparnaðurinn byggist einkum á tveimur atriðum, annars vegar svonefndri DryDye tækni við litun bómullar og hins vegar aukinni áherslu á notkun lífrænnar bómullar, sem er nú um 30% af allri bómull sem fyrirtækið notar.
(Sjá frétt EDIE í dag).