Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum

elf-160x80Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).

Miljøstyrelsen styrkir umhverfisvottaða fataframleiðslu

ecolabels_samlet_logo-160Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) auglýsti á dögunum eftir umsóknum frá dönskum fyrirtækjum sem vilja framleiða umhverfismerkt föt og aðrar textílvörur. Styrkina geta fyrirtækin notað til að kaupa sérfræðiráðgjöf vegna undirbúnings umhverfisvottunar samkvæmt kröfum Norræna svansins eða Umhverfismerkis ESB. Tilgangurinn með styrkveitingunni er að byggja upp reynslu innanlands í framleiðslu á umhverfisvottuðum klæðnaði og auðvelda fyrirtækjum að kynna sér kosti umhverfismerkjanna. Hæsti styrkur til einstakra fyrirtækja getur numið 99.000 dönskum krónum (tæplega 1,7 milljónum ísl. kr.).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 14. október).

Aukin vistnýtni í dönsku hagkerfi

grus-160Vistnýtni (e. eco-efficiency) í dönsku hagkerfi jókst um 21,6% á tímabilinu 2000-2014. Þetta þýðir að á árinu 2014 náðu Danir 21,6% meiri verðmætum út úr þeim náttúruauðlindum sem þeir nýttu en þeir gerðu árið 2000. Þetta samsvarar árlegum framförum upp á 1,41% og samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) eru horfur á að nýtingin eigi enn eftir að batna, jafnvel þannig að vistnýtni verði 16% betri árið 2030 en hún var 2014. Í svona útreikningum er þó nauðsynlegt að hafa í huga að ólíkar atvinnugreinar eru misfrekar á náttúruauðlindir. Þannig tekur byggingariðnaður til sín tiltölulega mikið af auðlindum. Lítil umsvif hafa verið í þessari grein í Danmörku frá því á árinu 2009 og má rekja bætta vistnýtni til þess öðru fremur. Árið 2014 voru 113,2 milljónir tonna af hráefni notaðar í dönsku hagkerfi, þ.m.t. lífmassi, jarðefnaeldsneyti, málmar og önnur jarðefni. Þessi notkun skilaði þjóðarframleiðslu upp á u.þ.b. 1.837 milljarða danskra króna (DKK) sem samsvarar 16,2 DKK á hvert kg hráefnis.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í gær).

Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi

2020-taepper-boern-160Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).

Ýmsar leiðir færar til að draga úr matarsóun

LífræntDKBetri umbúðahönnun, litakóðar fyrir réttar geymsluaðferðir og nýting „ljótra“ matvæla í stóreldhúsum eru meðal þeirra aðgerða sem stungið er upp á í þremur nýjum skýrslum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) um matarsóun. Í skýrslunum er lögð áhersla á að matarsóun á sér stað á öllum stigum lífsferils matvöru og því henti mismunandi aðgerðir mismunandi aðilum (framleiðendum, heildsölum, veitingahúsum, heimilum o.s.frv.). Í sérstakri skýrslu um umbúðir er bent á hvernig umbúðir fyrir brauð, grænmeti og ávexti geta haft áhrif á matarsóun og kynntar 23 hugmyndir að hentugri umbúðum. Í annarri skýrslu eru kynntar niðurstöður rannsóknar á hagkvæmni þess að nota „ljót“ matvæli í veitingahúsum og stóreldhúsum. Síðasta skýrslan inniheldur niðurstöður rannsóknar á litakóðum fyrir geymsluaðferðir en samkvæmt þeim geta litakóðar auðveldað neytendum að velja réttar geymsluaðferðir og draga þannig úr sóun.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 11. apríl).

Ólöglegt efni í 49 hárvörum

hairsprayEfnaeftirlit Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) fann ólöglega lofttegund í 49 hárvörum á dönskum markaði sem stofnunin tók nýlega til athugunar. Í framhaldi af þessu hefur sala á þessum vörum verið bönnuð. Samtals voru skoðaðar 120 hárvörur sem seldar eru í úðabrúsum og fannst lofttegundin R152A (díflúoretan) í 49 þeirra. Bannað hefur verið að nota efnið í úðabrúsa í Danmörku allt frá árinu 2002, ekki þó vegna skaðlegra áhrifa á heilsu heldur vegna þess að R152A er öflug gróðurhúsalofttegund. Eitt framleiðslufyrirtækjanna sem um ræðir var kært til lögreglu þar sem Miljøstyrelsen hefur áður haft afskipti af fyrirtækinu vegna svipaðs máls.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsens 8. desember).

Dönsk fyrirtæki gætu grætt milljarða á hringrásarhagkerfinu

money-tree_1170x659Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi gæti aukið þjóðarframleiðslu í Danmörku um 0,8-1,4%, skapað 7.000-13.000 ný störf og aukið nettóútflutning um 3-6% miðað við árið 2035, að því er fram kemur í nýrri úttekt frá Ellen MacArthur stofnuninni. Áherslur af þessu tagi gætu m.a. aukið tekjur matvælafyrirtækja um samtals 3-6 milljarða danskra króna á ári (56-112 milljarða ísl. kr.). Samhliða þessu myndi notkun nýrra hráefna minnka og kolefnisfótspor Dana sömuleiðis. Hringrásarhagkerfið miðar að því að hámarka verðmæti aðfanga. Þetta er m.a. hægt að gera með aukinni endurnotkun og endurvinnslu, bættri vöruhönnun og áherslu á ný viðskiptalíkön sem byggja á samnýtingu og kaupleigu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 26. nóvember).

Danska gervinefið slær í gegn

NoseBrennisteinsmengun í loftinu yfir Danmörku hefur minnkað um nær 60% frá síðustu áramótum í kjölfar hertra reglna um losun brennisteinstvíoxíðs frá skipum og aukins eftirlits. Þennan mikla árangur má m.a. rekja til „gervinefs“ sem komið var fyrir á Stórabeltisbrúnni á síðasta ári og þefar nú uppi brennisteinsmengun í útblæstri skipa sem sigla undir brúna. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum frá „nefinu“ fara 98% skipa að lögum hvað brennisteinsmengun varðar, en til að standast hinar nýju kröfur hafa mörg skipanna þurft að skipta um eldsneyti og hefur sú breyting mikinn aukakostnað í för með sér fyrir útgerðirnar. Danmörk er fyrsta landið í heiminum sem fylgist með brennisteinsmengun frá skipum með þeim hætti sem þar er gert.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. október).

Hormónaraskandi efni í sólarvörn

fisk (160x90)Efnið bensófenón-3 (BP3), sem notað er sem útblámasía (e. UV-filter) í ýmsar gerðir sólarvarnar, er hormónaraskandi að því er fram kemur í nýrri rannsókn vísindamanna við Syddansk Universitet í Odense. Þegar áhrif efnisins á fiska voru skoðuð kom í ljós að það hamlaði þroskun kynkirtla og leiddi til óeðlilega hás hlutfalls kvenfiska á kostnað karldýranna. Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kostaði rannsóknina og er nú að kanna hvort niðurstöðurnar nýtist til að fá takmarkanir á notkun efnisins samþykktar innan Evrópusambandsins. BP3 er ekki meðal algengustu tegunda af útblámasíum, en þeim sem vilja kaupa sólarvörn án efnisins er bent á að halda sig við Svansmerktar snyrti- og húðvörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 5. október).

Perflúorefni í barnafötum innan marka

PFOAPólý- og perflúorefni (PFAS) fundust í 15 af 30 textílvörum fyrir börn sem tekin voru fyrir í könnun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Efni af þessu tagi eru notuð til yfirborðsmeðhöndlunar á ýmsum varningi til að gera hann vatns- og fitufráhrindandi. Efnin brotna seint niður í náttúrunni og geta skaðað heilsu fólks. Í könnun Miljøstyrelsen var leitað að efnunum í regnfötum, útigöllum, bílstólum og kerrupokum. Efnin fundust sem fyrr segir í 50% tilfella, en að mati Miljøstyrelsen stafar börnum ekki hætta af við venjulega notkun umrædds varnings. Engu að síður sé ástæða til að velja frekar textílvörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Umhverfismerki ESB, enda ekki hægt að útiloka heilsufarslega áhættu ef börn komast líka í snertingu við efnin í öðrum varningi á sama tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).