Vistnýtni (e. eco-efficiency) í dönsku hagkerfi jókst um 21,6% á tímabilinu 2000-2014. Þetta þýðir að á árinu 2014 náðu Danir 21,6% meiri verðmætum út úr þeim náttúruauðlindum sem þeir nýttu en þeir gerðu árið 2000. Þetta samsvarar árlegum framförum upp á 1,41% og samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) eru horfur á að nýtingin eigi enn eftir að batna, jafnvel þannig að vistnýtni verði 16% betri árið 2030 en hún var 2014. Í svona útreikningum er þó nauðsynlegt að hafa í huga að ólíkar atvinnugreinar eru misfrekar á náttúruauðlindir. Þannig tekur byggingariðnaður til sín tiltölulega mikið af auðlindum. Lítil umsvif hafa verið í þessari grein í Danmörku frá því á árinu 2009 og má rekja bætta vistnýtni til þess öðru fremur. Árið 2014 voru 113,2 milljónir tonna af hráefni notaðar í dönsku hagkerfi, þ.m.t. lífmassi, jarðefnaeldsneyti, málmar og önnur jarðefni. Þessi notkun skilaði þjóðarframleiðslu upp á u.þ.b. 1.837 milljarða danskra króna (DKK) sem samsvarar 16,2 DKK á hvert kg hráefnis.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í gær).
Greinasafn fyrir merki: GDP
Dönsk fyrirtæki gætu grætt milljarða á hringrásarhagkerfinu
Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi gæti aukið þjóðarframleiðslu í Danmörku um 0,8-1,4%, skapað 7.000-13.000 ný störf og aukið nettóútflutning um 3-6% miðað við árið 2035, að því er fram kemur í nýrri úttekt frá Ellen MacArthur stofnuninni. Áherslur af þessu tagi gætu m.a. aukið tekjur matvælafyrirtækja um samtals 3-6 milljarða danskra króna á ári (56-112 milljarða ísl. kr.). Samhliða þessu myndi notkun nýrra hráefna minnka og kolefnisfótspor Dana sömuleiðis. Hringrásarhagkerfið miðar að því að hámarka verðmæti aðfanga. Þetta er m.a. hægt að gera með aukinni endurnotkun og endurvinnslu, bættri vöruhönnun og áherslu á ný viðskiptalíkön sem byggja á samnýtingu og kaupleigu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 26. nóvember).
Kolefniskræfnin minnkar allt of hægt
Kolefniskræfni (e. carbon intensity) hagkerfa heimsins minnkaði um 2,7% á árinu 2014, en kolefniskræfni er mælikvarði á koltvísýringslosun á hvern dollar af vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta kemur fram í tölum sem endurskoðunarfyrirtækið PWC birti í dag. Hér er um að ræða mestu lækkun á einu ári frá því að tölur af þessu tagi voru fyrst birtar fyrir 7 árum. Á árinu jókst samanlögð landsframleiðsla um 3,2% á sama tíma og kolefnislosun jókst um 0,5%. Þessi samdráttur er þó langt frá því að vera nægjanlegur til að hægt verði að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C eins og stefnt er að. Til þess þyrfti kolefniskræfnin að minnka um 6,3% árlega. Talsmaður PwC orðar það svo að þörf sé á byltingu í orkugeiranum í öllum ríkjum heims. Frá árinu 2000 hefur kolefniskræfnin aðeins minnkað um 1,3% á ári að meðaltali og ef sú þróun helst verða jarðarbúar að hætta alfarið að losa kolefni út í andrúmsloftið árið 2036 til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Græn skattbreyting skapar störf og eflir nýsköpun
Hægt er að auka hagvöxt, fjölga störfum og efla nýsköpun með því að hækka skatta og afnema niðurgreiðslur á umhverfisskaðlegum vörum og þjónustu, en lækka að sama skapi skatta á tekjur og fjárfestingar. Þetta er niðurstaða úttektar sem Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) hefur gert í fjórum Evrópulöndum sem hafa farið hvað verst út úr efnahagsþrengingum síðustu ára. Grænir skattar hafa minni neikvæð áhrif á þjóðarframleiðslu en t.d. tekjuskattur og virðisaukaskattur, auk þess sem þeir geta stuðlað að umhverfisvænni hegðun neytenda. Miklar líkur eru á að með þessu skapist ný störf af ýmsu tagi og að nýsköpun eflist til lengri tíma litið.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 14. maí).