Hættuleg efni algeng í útivistarvörum

LeavingtracesAðeins fjórar af 40 útivistarvörum sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Greenpeace reyndust lausar við per- og pólýflúoruð efnasambönd sem geta verið hættuleg fyrir umhverfi og heilsu, en þessi efni eru notuð vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna. Auk útivistarfatnaðar og skóbúnaðar náði rannsóknin til varnings á borð við bakpoka, tjöld og svefnpoka. Meðal hættulegra efna sem leyndust í vörunum má nefna PFOA og aðrar langar flúoraðar kolefniskeðjur, en einnig kom í ljós að minni flúorkolvetni (PFC) eru notuð í vaxandi mæli. Þessi efni eru þrávirk rétt eins og PFOA, en áhrif þeirra eru minna þekkt. Sum þeirra eru rokgjörn og því líklegri en önnur til að leka úr vörunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace í dag).

Perflúorefni í barnafötum innan marka

PFOAPólý- og perflúorefni (PFAS) fundust í 15 af 30 textílvörum fyrir börn sem tekin voru fyrir í könnun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Efni af þessu tagi eru notuð til yfirborðsmeðhöndlunar á ýmsum varningi til að gera hann vatns- og fitufráhrindandi. Efnin brotna seint niður í náttúrunni og geta skaðað heilsu fólks. Í könnun Miljøstyrelsen var leitað að efnunum í regnfötum, útigöllum, bílstólum og kerrupokum. Efnin fundust sem fyrr segir í 50% tilfella, en að mati Miljøstyrelsen stafar börnum ekki hætta af við venjulega notkun umrædds varnings. Engu að síður sé ástæða til að velja frekar textílvörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Umhverfismerki ESB, enda ekki hægt að útiloka heilsufarslega áhættu ef börn komast líka í snertingu við efnin í öðrum varningi á sama tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).

Eiturefni í söluvarningi fyrir HM 2014

hm2014Varningur frá Nike, Adidas og Puma sem ætlaður er til sölu í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem hefst í Ríó í næsta mánuði, inniheldur ýmis skaðleg efni yfir leyfilegum mörkum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace, A Red Card for Sportswear Brands. Skýrslan byggir á greiningu á 33 vörutegundum sem settar hafa verið á markað í tilefni af keppninni, nánar tiltekið 21 tegund af fótboltaskóm, 7 bolum, fjórum mismunandi markmannshönskum og hinum opinbera fótbolta mótsins. Óháðar rannsóknarstofur í Þýskalandi og Bretlandi fundu meðal annars perflúorkolefni (PFC), nónýlfenóletoxýlat (NPE), þalöt og dímetýlformamíð (DMF) í vörunum, en þessi efni eru talin vera krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Allir skór sem skoðaðir voru innihéldu bæði þalöt og DMF og 13 skótegundir af 21 innihéldu PFC yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins í textílvöru. Fyrirtækin þrjú taka öll þátt í DETOX-verkefni Greenpeace sem hefur það að markmiði að hætta notkun á skaðlegum efnum fyrir árið 2020.
(Sjá frétt Fashion Forum í dag).

Dýru barnafötin líka eitruð

TískulygiHelstu tískurisar heimsins nota hættuleg efni við framleiðslu á barnafötum, ekki síður en aðrir framleiðendur. Þetta kemur fram í skýrslunni A Little Story about a Fashionable Lie sem Greenpeace kynnti á dögunum í tengslum við tískuvikuna sem nú stendur yfir í Mílanó. Í rannsókn Greenpeace fundust leifar af hættulegum efnum í 16 flíkum af 27 sem teknar voru til skoðunar. Meðal þessara efna voru þalöt og perflúoruð efni (PFC), svo og nonýlfenólethoxýlöt (NPE), sem enn eru notuð sem bleikiefni í fataiðnaði þrátt fyrir mikla skaðsemi í umhverfislegu og heilsufarslegu tilliti og þrátt fyrir að notkun þeirra sé bönnuð í fataframleiðslu innan ESB. Rannsókn Greenpeace náði til fataframleiðendanna Dior, Dolce&Gabbana, Giorgio Armani, Hermés, Louis Vuitton, Marc Jacobs, Trussardi og Versace. Trussardi var eina merkið þar sem ekki fundust hættuleg efni.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 17. febrúar).