Danska gervinefið slær í gegn

NoseBrennisteinsmengun í loftinu yfir Danmörku hefur minnkað um nær 60% frá síðustu áramótum í kjölfar hertra reglna um losun brennisteinstvíoxíðs frá skipum og aukins eftirlits. Þennan mikla árangur má m.a. rekja til „gervinefs“ sem komið var fyrir á Stórabeltisbrúnni á síðasta ári og þefar nú uppi brennisteinsmengun í útblæstri skipa sem sigla undir brúna. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum frá „nefinu“ fara 98% skipa að lögum hvað brennisteinsmengun varðar, en til að standast hinar nýju kröfur hafa mörg skipanna þurft að skipta um eldsneyti og hefur sú breyting mikinn aukakostnað í för með sér fyrir útgerðirnar. Danmörk er fyrsta landið í heiminum sem fylgist með brennisteinsmengun frá skipum með þeim hætti sem þar er gert.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. október).

Verður hætt að skrá olíuskip á Marshalleyjum?

marshall_islandsYfirvöld á Marshalleyjum íhuga að hætta nýskráningum  olíuskipa og borpalla, en eyríkið er nú með þriðju stærstu skipaskrá í heimi þrátt fyrir mikið fámenni. Um 2,5% af landsframleiðslu Marshalleyja má rekja til nýskráningar olíuskipa og borpalla. Ríkið er eitt þeirra verst stöddu í heiminum með tilliti til loftslagsbreytinga, enda er hæsti punktur eyjanna aðeins nokkrum metrum yfir sjávarmáli, auk þess sem óveður á Kyrrahafi hafa orðið tíðari síðustu ár. Utanríkisráðherra Marshalleyja segir að málið sé mjög flókið, því að ef Marshalleyjar hætti skráningu olíubúnaðar þýði það ekki einungis samdrátt í tekjum ríkisins heldur sé líklegt að stórfyrirtæki leiti til annara landa og þá sé vandamálið enn óleyst. Marshalleyjar hafa lagt mikla áherslu á að Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) setji lögbundin losunarviðmið fyrir skipaflotann.
(Sjá frétt the Guardian 13. maí).

Gervinef þefar uppi mengun frá skipum

NoseUmhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur fengið Tæknistofnunina í Århus til að þróa gervinef sem komið verður fyrir á Stórabeltisbrúnni á næsta ári. Frá og með 1. janúar 2015 mun „nefið“ þefa uppi brennisteinsmengun í útblæstri skipa sem sigla undir brúna. Þann dag ganga einmitt í gildi nýjar reglur Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) um hámarksstyrk brennisteins í útblæstri skipa nálægt landi. Verði „nefið“ vart við mengun yfir mörkum verður farið um borð í viðkomandi skip, tekið sýni af eldsneyti og sektum beitt ef sýnið stenst ekki kröfur IMO.
(Sjá umfjöllun í fréttabréfinu Miljønyt 14. mars).