Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum

elf-160x80Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).

Ofnæmisvaldar algengir í hreingerningarefnum

test-kemi-i-universalrengoering160Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

ESB bannar MI í snyrtivörum!

lotionpaahaand1170x659Evrópusambandið (ESB) hefur bannað rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) í svokölluðum „leave-on“ húðvörum, þ.e.a.s. vörum á borð við hvers kyns krem og svitarlyktareyði, sem ætlað er að liggja lengi á húðinni. Dönsk yfirvöld hafa lengi kallað eftir slíku banni, en MI er ofnæmisvaldandi og telja dönsk yfirvöld efnið vera eina helstu ástæðuna fyrir fjölgun ofnæmistilfella í Danmörku. Í framhaldinu mun ESB ákveða hámarksviðmið fyrir MI í öðrum snyrtivörum, en efnið er m.a. notað í sjampó og raksápu.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen í dag).

Coop ræðst gegn skaðlegum efnum

Solcreme_og_tandpas_964894y (160x107)Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).

Ofnæmisvaldandi efni algeng í handsápum

haandsaebe-testÞekktir ofnæmisvaldar eða hormónaraskandi efni fundust í þriðju hverri handsáputegund sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu nýlega. Farið var yfir innihaldslýsingar í 76 mismunandi tegundum af handsápu og reyndust 25 þeirra innihalda efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Nokkrar tegundir innihéldu m.a. bakteríudrepandi efnið tríklósan sem er talið geta truflað hormónastarfsemi líkamans auk þess sem það stuðlar að vexti lyfjaónæmra baktería. Tríklósan getur safnast upp í fæðukeðjunni og er skaðlegt vatnalífverum. Nítján tegundir innihéldu rotvarnarefnin MCI og MI (metýlklóróísóthiazólínon og metýlísóthiazólínon) sem eru ein algengasta orsök ofnæmis af völdum rotvarnarefna. Leyfilegur hámarksstyrkur þessara efna var 25-faldaður árið 2005 og síðan hefur ofnæmistilfellum vegna þeirra fjölgað gríðarlega. Um 1.000 tilfelli greinast nú í Danmörku árlega.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 21. ágúst).

ESB bannar 4 skaðleg efni í leikföngum fyrir börn

MI_kosmetikEvrópusambandið samþykkti í dag bann við notkun metýlísóþíasólínóns (MI) og þriggja annarra efna í leikföng fyrir börn undir þriggja ára aldri og í öllum nagleikföngum. MI er rotvarnarefni sem m.a. hefur verið notað í andlitsmálningu fyrir börn og hafa ofnæmisviðbrögð við efninu farið mjög í vöxt á síðustu árum. Tvö hinna efnanna eru einnig ofnæmisvaldandi rotvarnarefni, en þar er um að ræða bensísóþíasólínón (BIT) og klórmetýlísóþíasólínón (CMI). Fjórða efnið er formamíð sem talið er hormónaraskandi og má meðal annars finna í leikmottum fyrir börn. Eftir sem áður má nota rotvarnarefnin þrjú í snyrtivörur fyrir fullorðna, en norrænir neytendur geta varast þessi efni með því að velja Svansmerktar snyrtivörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í dag).

Skaðleg efni finnast enn í blautþerrum

vaadservietter_huggies_800x387Nýjar blautþerrur frá Huggies innihalda rotvarnarefnið fenóxýetanól, en eldri gerð af þessum þerrum var tekin af markaði þegar í ljós kom að þær innihéldu rotvarnarefnið metýlísóthiazólínon (MI), sem er þekktur ofnæmisvaldur. Vísindanefnd ESB hefur ekki komist að niðurstöðu um það hvort öruggt sé að nota fenóxýetanól í neytendavörur og reyndar telja frönsk heilbrigðisyfirvöld óráðlegt að nota efnið í vörur sem notaðar eru á bleyjusvæði barna. Dönsku neytendasamtökin Tænk furða sig á því að Huggies hafi ákveðið að skipta MI út fyrir annað efni sem kann einnig að vera skaðlegt. Í yfirlýsingu frá Huggies kemur hins vegar fram að hætt verði að nota fenóxýetanól í þessar vörur frá og með næsta ári.
(Sjá frétt Tænk 6. október).