Vistnýtni (e. eco-efficiency) í dönsku hagkerfi jókst um 21,6% á tímabilinu 2000-2014. Þetta þýðir að á árinu 2014 náðu Danir 21,6% meiri verðmætum út úr þeim náttúruauðlindum sem þeir nýttu en þeir gerðu árið 2000. Þetta samsvarar árlegum framförum upp á 1,41% og samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) eru horfur á að nýtingin eigi enn eftir að batna, jafnvel þannig að vistnýtni verði 16% betri árið 2030 en hún var 2014. Í svona útreikningum er þó nauðsynlegt að hafa í huga að ólíkar atvinnugreinar eru misfrekar á náttúruauðlindir. Þannig tekur byggingariðnaður til sín tiltölulega mikið af auðlindum. Lítil umsvif hafa verið í þessari grein í Danmörku frá því á árinu 2009 og má rekja bætta vistnýtni til þess öðru fremur. Árið 2014 voru 113,2 milljónir tonna af hráefni notaðar í dönsku hagkerfi, þ.m.t. lífmassi, jarðefnaeldsneyti, málmar og önnur jarðefni. Þessi notkun skilaði þjóðarframleiðslu upp á u.þ.b. 1.837 milljarða danskra króna (DKK) sem samsvarar 16,2 DKK á hvert kg hráefnis.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í gær).