Efnið bensófenón-3 (BP3), sem notað er sem útblámasía (e. UV-filter) í ýmsar gerðir sólarvarnar, er hormónaraskandi að því er fram kemur í nýrri rannsókn vísindamanna við Syddansk Universitet í Odense. Þegar áhrif efnisins á fiska voru skoðuð kom í ljós að það hamlaði þroskun kynkirtla og leiddi til óeðlilega hás hlutfalls kvenfiska á kostnað karldýranna. Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kostaði rannsóknina og er nú að kanna hvort niðurstöðurnar nýtist til að fá takmarkanir á notkun efnisins samþykktar innan Evrópusambandsins. BP3 er ekki meðal algengustu tegunda af útblámasíum, en þeim sem vilja kaupa sólarvörn án efnisins er bent á að halda sig við Svansmerktar snyrti- og húðvörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 5. október).