Brennisteinsmengun í loftinu yfir Danmörku hefur minnkað um nær 60% frá síðustu áramótum í kjölfar hertra reglna um losun brennisteinstvíoxíðs frá skipum og aukins eftirlits. Þennan mikla árangur má m.a. rekja til „gervinefs“ sem komið var fyrir á Stórabeltisbrúnni á síðasta ári og þefar nú uppi brennisteinsmengun í útblæstri skipa sem sigla undir brúna. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum frá „nefinu“ fara 98% skipa að lögum hvað brennisteinsmengun varðar, en til að standast hinar nýju kröfur hafa mörg skipanna þurft að skipta um eldsneyti og hefur sú breyting mikinn aukakostnað í för með sér fyrir útgerðirnar. Danmörk er fyrsta landið í heiminum sem fylgist með brennisteinsmengun frá skipum með þeim hætti sem þar er gert.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. október).