Mikil glimmernotkun á kjötkveðjuhátíðum veldur áhyggjum

Gríðarlegt magn af glimmer er notað í skraut og líkamsmálningu í tengslum við kjötkveðjuhátíðir á borð við þær sem fram fara þessa dagana í Ríó og víðar. Glimmer er að mestu leyti gert úr plastefnum og því stuðlar þessi mikla notkun að vaxandi örplastmengun í hafinu. Sumir skipuleggjendur hafa leitast við að draga úr glimmernotkuninni en aðrir frábiðja sér afskipti af þessari ríku hefð. Hægt er að fá glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni, svo sem úr sellulósa úr tröllatré (e. Eucalyptus), vaxi og náttúrulegum olíum. Glimmer af þessu tagi er hins vegar margfalt dýrara en örplastglimmer.
(Sjá frétt The Guardian 11. febrúar).

Skordýraeitur en ekki zika-veira orsök dverghöfuðs?

399421Hópar argentínskra og brasilískra lækna telja að ekki sé hægt að kenna zika-veirunni um fósturskaðafaraldurinn sem nú geisar í Brasilíu, þar sem fjöldi barna hefur fæðst með dverghöfuð (e. microcephaly). Ekki hafi verið sýnt fram á tengsl veirunnar við fósturskaðann, enda hafi veiran aðeins greinst í 17 dverghöfuðtilfellum af 404 sem skoðuð hafi verið. Þá hafi ekki komið upp eitt einasta dverghöfuðtilfelli hjá þeim 3.177 verðandi mæðrum sem greindar hafi verið með zika-veiru í Kólumbíu, og jafnvel á svæðum þar sem 75% íbúa eru smituð af zika-veirunni hafi engin fæðst með dverghöfuð. Læknarnir telja líklegra að fósturskaðann megi rekja til skordýraeitursins pýriproxýfens, sem notað hefur verið í stórum stíl á þeim svæðum þar sem flest dverghöfuðtilfellin hafa komið upp. Þar hefur efninu m.a. verið blandað í drykkjarvatn frá því á árinu 2014 í þeim tilgangi að drepa lirfur moskítóflugunnar.
(Lesið frétt The Ecologist 10. febrúar).

100 milljón hektarar af ósnertum skógi horfnir á 14 árum

forest_160Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).