Ný aðferð hreinsar lyfjaleifar úr skólpi

Tæknideild Linköpingbæjar í Svíþjóð hefur tekið í notkun fyrstu skólphreinsistöðina sem eyðir lyfjaleifum að miklu leyti áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þetta er gert með því að bæta ósoni í vatnið í stöðinni. Aðferðin er orkufrek og því nauðsynlegt að gæta hófs í beitingu hennar, auk þess sem tryggja þarf að allt ósonið sé nýtt í ferlinu. Fyrstu prófanir benda til að hægt sé að hreinsa allt að 90% lyfjaleifanna úr fráveituvatninu með þessari aðferð, en engu að síður leggja sérfræðingar áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða til að sem minnst af lyfjaleifum berist í fráveituna.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 19. janúar).

Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira

Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).

Skotar banna eyrnapinna úr plasti

Skosk stjórnvöld kynntu á dögunum þá ákvörðun sína að banna framleiðslu og sölu á eyrnapinnum úr plasti. Gríðarlegt magn af þessu varningi berst enn til sjávar með fráveituvatni, þrátt fyrir margar upplýsingaherferðir til að kenna fólki að henda ekki eyrnapinnum í salernisskálar að notkun lokinni. Plastið í pinnunum brotnar seint eða aldrei niður í hafinu og pinnarnir geta verið banabiti fiska og annarra sjávardýra sem gleypa þá. Margar stærri verslunarkeðjur eru hættar að selja plasteyrnapinna, enda er nóg til að pinnum úr umhverfisvænni efnum.Talið er að þessi eina aðgerð geti minnkað plastmengun frá Skotlandi um helming.
(Sjá frétt The Guardian 11. janúar).

Örplast gæti mengað landbúnaðarland

nature-160Plastögnum úr snyrtivörum, klæðnaði og iðnaðarferlum er hugsanlega dreift í stórum stíl á akra og tún þegar seyra úr hreinsistöðvum fráveitukerfa er notuð til áburðar. Fullkomnar skólphreinsistöðvar ná að fella út langstærstan hluta þeirra plastagna sem berast í fráveituna. Þessar agnir verða eftir í seyrunni og verða ekki auðveldlega aðskildar frá henni. Agnirnar gætu því mengað langbúnaðarland með ófyriséðum afleiðingum fyrir fæðukerfið og öryggi matvæla. Talið er að árlega safnist 93.000-236.000 tonn af plastögnum upp í efstu lögum sjávar, en magnið sem dreift er árlega á landbúnaðarland gæti verið enn meira, eða 63.000-430.000 tonn í Evrópu og 44.000-300.000 tonn í Norður-Ameríku.
(Sjá frétt í Nature 22. september).

Fosfór endurheimtur úr skólpi

phosphorus_160Bandarískir vísindamenn hafa þróað nýja og betri aðferð til að endurheimta fosfór úr skólpi, en mikið af fosfór tapast með yfirborðsvatni og fljótandi úrgangi frá mönnum og dýrum. Athuganir vísindamannanna benda til að venjuleg skólphreinsistöð í Bandaríkjunum gæti framleitt um 490 tonn af fosfór árlega með þessari endurvinnslutækni. Með því að samþætta líffræðilegar og efnafræðilegar aðferðir telja vísindamennirnir að hægt sé að ná um 90% fosfórs úr fráveituvatni áður en því er sleppt út og að stofnkostnaður vegna hinnar nýju tæki ætti að geta borgað sig upp á þremur árum með sölu á fosfór. Fosfór er notaður í tilbúinn áburð og er undirstaða nútíma landbúnaðar. Eftirspurn eftir fosfór vex ört og er talið að nýtanlegar fosfórbirgðir heims muni ganga til þurrðar áður en langt um líður.
(Sjá frétt Science Daily 5. maí).

Fosfór unninn úr skólpi

140324090420-largeÞýskir vísindamenn hafa kynnt nýja aðferð til að vinna fosfór úr skólpi. Segulmagnaðar agnir sem geta auðveldlega tengst fosfórfrumeindum eru settar í skólpið og þegar agnirnar hafa bundast fosfórnum er segull notaður til að fjarlægja þær. Fosfór er til staðar í tilbúnum áburði og hefur afrennsli hans neikvæð áhrif á umhverfið, meðal annars í formi ofauðgunar. Á sama tíma fara nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins ört minnkandi, en fosfór er ein af undirstöðum nútímalandbúnaðar, auk þess sem efnið er notað í fjölmargar vörutegundir. Með því að vinna fosfór úr skólpi er því dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum um leið og þetta verðmæta efni er endurnýtt.
(Sjá frétt Science Daily 24. mars).