Vísbendingar um tengsl loftmengunar við Alzheimer, Parkinson og MND

Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).

Nýir möguleikar í endurvinnslu frauðplasts

fraudplastMexíkóskir frumkvöðlar hjá fyrirtækinu Rennueva hafa hannað vél sem getur umbreytt frauðplasti í plastperlur sem nýtast sem hráefni við framleiðslu á glæru harðplasti. Tæknin sem notuð er byggist á því að hita frauðplastið og þjappa því saman, en í raun eru 95% af venjulegu frauðplasti ekkert annað en loft. Vélin getur unnið úr 100 kílóum af frauðplasti á klukkustund og er nýtnin um 97%. Meðhöndlun frauðplasts er vaxandi vandamál í heiminum þar sem mikið er notað af efninu en fátt um valkosti í endurvinnslu. Söfnun hefur ekki verið nógu markviss, en æskilegt er að frauðplastið sé ómengað af öðru plasti þegar því er safnað. Rennueva hefur tekið upp samstarf við umbúðafyrirtæki til að finna bestu leiðirnar í þessu.
(Sjá frétt Science Daily 18. nóvember).

Mikið af olíu á ströndum Louisiana þremur árum eftir slysið á Mexíkóflóa

Mexico gulf oil spillTæp 1.400 tonn af olíumenguðu efni voru fjarlægð af strandsvæðum Louisianafylkis í Bandaríkjunum á tímabilinu mars-ágúst á þessu ári, en það er 25 sinnum meira en á sama tímabili í fyrra. Skýringin á þessu er talin vera sú að fellibylurinn Ísak og fleiri óveður hafi skolað sandi ofan af olíuhaugum sem grafist höfðu niður í fjöruna. Enn eru rúmir 300 km af strandlengju Louisiana sagðir mengaðir af olíu eftir stærsta olíuslys sögunnar sem hófst með sprengingu í olíuborpalli BP á Mexíkóflóa 20. apríl 2010. Gert er ráð fyrir dómsúrskurði snemma á næsta ári um það hversu háa sekt BP þurfi að greiða vegna slyssins.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).