Vínarsamningurinn 30 ára!

ozonelayer_160Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins fagnar 30 ára afmæli nú á sunnudaginn. Samningurinn var undirritaður í Vín í Austurríki 22. mars 1985 og er, ásamt Montrealbókuninni sem gerð var við hann haustið 1987, eini alþjóðlegi samningurinn um umhverfismál sem fullgiltur hefur verið af öllum ríkjum heims. Montrealbókunin þykir einstakt dæmi um vel heppnað samstarf á alþjóðavettvangi, en losun ósoneyðandi efna hefur dregist saman um 98% á síðustu þremur áratugum og árleg krabbameinstilfelli eru talin vera tveimur milljónum færri en þau myndi annars vera. Þessi góði árangur er flestu öðru fremur talinn stafa af því að stefnumótunin var frá upphafi byggð á vísindalegum rannsóknum.
(Sjá frétt UNEP í dag).

Aukinn styrkur lítt þekktra ósoneyðandi efna

ozone_160Styrkur díklórómetans og fleiri lítt þekktra skammlífra ósoneyðandi efna í andrúmsloftinu hefur hækkað verulega samkvæmt rannsókn sem sagt var frá í Nature Geoscience á dögunum. Ekki var tekið tillit til þessara efna við gerð Montreal bókunarinnar um ósoneyðandi efni, þar sem þau þóttu síður mikilvæg en önnur efni sem staldra lengur við í andrúmsloftinu. Styrkur þessara efna hefur hins vegar hækkað svo hratt að vísindamenn óttast að þróunin dragi úr árangri bókunarinnar. Í greininni í Nature kemur einnig fram að þörf sé á auknum mælingum til að hægt sé að greina betur uppsprettu vandans og grípa til viðeigandi ráðstafana. Að öðrum kosti blasi við vaxandi óvissa í spám um þróun ósonlagsins og loftslagsins á jörðinni.
(Sjá frétt ENN 17. febrúar).