Lítið um hættuleg efni í drykkjarbrúsum

drikkedunke-artikel-webFlestir drykkjarbrúsar á borð við þá sem gjarnan eiga sér vísan stað í skólatöskum barna og unglinga standast þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar vöru um efnainnihald og hugsanlegan leka efna í drykki. Þetta kom fram í nýrri rannsókn á vegum dönsku neytendasamtakanna Tænk, þar sem kannaðar voru 8 tegundir drykkjarbrúsa úr plasti, gleri og málmum. Gerð var sérstök leit að þungmálmum og hormónaraskandi efnum á borð við þalöt og BPA. Allir brúsarnir stóðust prófið í öllum aðalatriðum en úr einum brúsanum lak óverulegt magn af áli út í viðkomandi drykk. Í einu öðru tilviki varð vart við óverulega efnamegnun þegar í hlut áttu súrir drykkir. Allt var þetta þó innan marka.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 20. janúar).

Hættuleg efni í frárennslisvatni frá bergbroti

fracking_160Frárennslisvatn frá bergbroti (e. fracking) getur innihaldið þungmálma á borð við kvikasilfur, króm og arsen, auk annarra skaðlegra efna, að því er fram kom nýlega í viðamikilli rannsókn Rice Háskólans í Bandaríkjunum. Styrkur efnanna er oft yfir löglegum mörkum fyrir drykkjarvatn, en málmarnir leysast úr berginu þegar vatninu er dælt niður. Um 50 lífræn efni fundust í vatninu, þ.á.m. krabbameinsvaldandi efni á borð við tólúen og etýlbensen. Halógenuð kolvetni fundust einnig í öllum sýnum, en þessi efni eru notuð til að hreinsa frárennslisvatn til að hægt sé að nota það aftur. Efnin geta skaðað lifur og taugakerfi. Hins vegar kom það á óvart að PAH-efni skyldu ekki greinast í vatninu, en slík efni er yfirleitt að finna í frárennslisvatni frá námu- og kolavinnslu. Rannsóknin undirstrikar þörfina fyrir auknar rannsóknir á umhverfisáhrifum bergbrots og mikilvægi hreinsunar og meðhöndlunar frárennslisvatns.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 19. febrúar).

Skaðlegir þungmálmar í símahulstrum og veskjum

barnogsimahulstur_160Símahulstur og veski úr gervileðri innihalda mörg hver þungmálma. Þetta kom fram í nýrri athugun Test Fakta í Svíþjóð, þar sem skoðaðar voru 11 vörur af þessu tagi. Fimm af þessum vörum innihéldu blý, þar af fjórar í meiri styrk en leyft verður í væntanlegum reglum ESB um efnainnihald í vörum sem börn geta stungið upp í sig. Í símahulstri úr plasti frá Glitter fannst einnig óleyfilegt magn kadmíums og í tveimur hulstrum frá Apple og Phonehouse fannst mikið af krómi. Ekki var þó um að ræða sexgilt króm heldur þrígilt sem talið er minna skaðlegt heilsunni. Blý er oft að finna í gervileðri, einkum í rauðum lit, en króm finnst frekar í leðurvöru þar sem málmurinn er notaður við sútun. Ólíklegt er að þungmálmarnir í þessum vörum valdi heilsutjóni einir og sér, en hafa ber í huga að lítið er vitað um kokteiláhrif skaðlegra efna úr neytendavörum. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir slíku.
(Sjá frétt Test Fakta 12. janúar).

Þalöt og þungmálmar í plastsandölum

Margar tegundir plastsandala innihalda efni sem geta verið skaðleg umhverfi og heilsu. Í nýlegri könnun Sænska efnaeftirlitsins kom í ljós að 13 skópör af 30 innihéldu hættuleg efni á borð við þalöt, blý og kadmíum. Engar reglur eru í gildi um efnainnihald skótaus, en hætta er talin á að þalöt í skóm hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks til lengri tíma litið, einkum þegar þau bætast við þalöt sem finnast í öðrum neytendavörum sem fólk umgengst daglega. Mest er þó hættan fyrir þá sem ganga berfættir í skónum og flýta þannig fyrir upptöku efnanna í líkamann. Þalöt geta truflað hormónastarfsemi og haft áhrif á frjósemi.
(Sjá frétt forbrugerkemi.dk 22. október).